Starfsáætlun framkvæmdastjórnar ESB

Grænn sáttmáli fyrir Evrópu er eitt fyrirferðamesta málið á dagskrá framkvæmdastjórnar ESB árið 2020. Forseti framkvæmdastjórnar ESB, Ursula von der Leyen, hefur lýst því yfir að um sé að ræða mikilvægasta verkefni okkar tíma og að áframhaldandi hagsæld Evrópu byggi á því að vistkerfi jarðarinnar séu heilbrigð og nýting náttúruauðlinda sjálfbær. Hér er vísað til þess að loftslagsbreytingar , ofnýting á náttúruauðlindum, útrýming tegunda, auk skógarelda, flóða og annarra náttúruhamfara sem loftslagsbreytingar auka enn á, grafi undan öryggi og hagsæld Evrópu.

Grænn sáttmáli fyrir Evrópu er svar ESB við þessu. Sáttmálanum er ætlað að tryggja kolefnislausa Evrópu árið 2050 og því verði gripið til markvissra aðgerða til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda auk þess að aðlaga samfélög og efnahagskerfi Evrópu að áhrifum loftslagsbreytinga. Sáttmálanum er auk þess ætlað að vernda náttúruauðlindir og líffræðilegan fjölbreytileika Evrópu og þá skipar vernd hafsins einnig stóran sess í samningnum.

En Græni sáttmálinn fjallar um annað og meira en loftslag og umhverfi. Honum er einnig ætlað að vera vaxtarsproti fyrir evrópskt efnahagslíf. Nýsköpun og nútímavæðing hagkerfa og iðnaðar Evrópu er því grundvallaratriði í samningnum, þar sem sköpun nýrra starfa og aukin samkeppnishæfni Evrópu eru lykilhugtök. Ný iðnaðarstefna er af þeim sökum hluti af þessum græna samningi og þá er „stafrænu byltingunni“ einnig ætlað stórt hlutverk þegar kemur að grænum og sjálfbærum lausnum.

Ljóst er að Græni sáttmálinn mun hafa mikil áhrif á borgir, bæi og sveitarfélög í Evrópu þar sem hann fjallar um málaflokka sem svæðisbundin stjórnvöld fara með að stórum hluta eða að öllu leyti.

i) Loftslagsstefna ESB

Ný loftslagsstefna ESB er eitt af grundvallaratriðum Græna sáttmálans. Þar er stefnt að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í Evrópu um 55% fyrir árið 2030 og gera Evrópu að fyrstu kolefnishlutlausu heimsálfunni fyrir árið 2050. Ljóst er að þessi markmið munu kalla á verulega fjárfestingu á öllum sviðum samfélagsins. Þá setja fjölmörg evrópsk sveitarfélög markið jafnvel enn hærra og stefna á kolefnishlutleysi eigi síðar en 2030. Þar sem Ísland er aðili að loftslagsmarkmiðum ESB má fastlega búast við að markmið ESB muni einnig eiga við á Íslandi að einhverju leyti.

ii) Aðlögun að loftslagsbreytingum

Framkvæmdastjórn ESB vinnur um þessar mundir að nýrri aðgerðaáætlun í tengslum við aðlögun að loftslagsbreytingu. Upphaflega var stefnt að því að hún yrði tilbúin í lok árs, en reikna má með að byrjun árs 2021 sé líklegri niðurstaða. Aðlögun að loftslagsbreytingum er mikilvægt mál fyrir sveitarfélög þar sem afleiðingar þeirra, t.d. eignatjón vegna aukinna flóða og áhrif á innviðauppbyggingu, fellur að stórum hluta undir ábyrgð og verksvið sveitarstjórna. Því er mikilvægt að aðgerðaáætlun sem þessi sé unnin í nánu samstarfi við evrópsk sveitarfélög. Sérfræðinganefnd innan hagsmunasamtaka evrópskra sveitafélaga (CEMR) hefur fjallað um málið og komið skoðunum og athugasemdum evrópskra sveitarfélaga til skila við framkvæmdastjórn ESB. Í þessi samhengi má einnig nefna að tillögur ESB, líkt og tillögur Íslands í loftslagsmálum, miða að því að uppfylla markmið s.k. Parísarsamnings sem nær til 2030. Í aðgerðaáætlun Íslands er m.a. kveðið á um að sveitarfélög skulu setja sér loftslagsstefnu og skal hún innihalda skilgreind markmið um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda og kolefnisjöfnun ásamt aðgerðum svo að þeim markmiðum verði náð.

iii) Loftslagsvæn orka

Aðildarríki ESB vinna eftir s.k. landsáætlunum á sviði orku- og loftslagsmála. Framkvæmdastjórn ESB vinnur um þessar mundir að greiningu á þeim árangri sem þessar landsáætlanir eru að skila. Þessari greiningu á að vera lokið í júní 2021 og í framhaldi af því mun framkvæmdastjórn ESB leggja til, ef þörf krefur, frekari aðgerðir og/eða hert losunarmörk. Orkuskipti, og þá ekki síst stigminkandi notkun á kolum í iðnaði og til húshitunar, er grundvallaratriði fyrir mörg aðildarríki ESB. Á sama tíma þarf að tryggja orkuöryggi í álfunni. Þá eru áætlanir framkvæmdastjórnar ESB um sjálfbærar samgöngur og vistvæna innviða uppbyggingu nátengd aðgerðum sem varða orku- og loftslagsmál.

iv) Sjálfbærar byggingar

Framkvæmdastjórn ESB leggur mikla áherslu á að ráðist verði í ganggerar aðgerðir sem snúa að sjálfbærni bygginga Á þessu ári fer fram samráð við hlutaðeigandi aðila varðandi endurnýjun bygginga, hversu langt eigi að ganga í þeim efnum, hversu hratt, hvað skili mestum árangri þegar horft er til loftslagsaðgerða, o.s.frv. Hér er um að ræða gríðarlega mikilvægt mál fyrir sveitarfélög, þar sem mikill fjöldi gamalla bygginga heyra undir þau og því ljóst að kvaðir um sjálfbærni bygginga getur haft í för með sér mikinn kostnað fyrir sveitarfélög. Hagsmunasamtök evrópskra sveitarfélaga, CEMR, sendi framkvæmdastjórn ESB umsögn um málið. Þar er m.a. bent á þessa staðreynd og því ítrekað að sveitarfélög séu höfð með í ráðum á öllum stigum málsins. Þá er bent á að jafnvægi þurfi að ríkja á milli loftslagsmarkmiða og félagslegra markmiða ESB og að sveitarfélögum standi til boða fjármagn úr sjóðum ESB til að fjármagna aðgerðir sem þessar. Hvað Ísland varðar þá er staðan allt önnur hér á landi þar sem t.d. bæði raforka og húshitun er loftslagsvæn. Engu að síður er mikilvægt að íslensk stjórnvöld fylgist vel með þessum málum og að tryggt sé að Ísland taki ekki á sig skuldbindingar sem eru ekki í samræmi við þær aðstæður sem hér ríkja.

v) Sjálfbær framleiðsla og iðnaður – Hringrásarhagkerfið

Framkvæmdastjórn ESB vinnur um þessar mundir að nýrri aðgerðaáætlun um innleiðingu hringrásarhagkerfisins. Þessu samfara er verið að skoða hvort framkvæmdastjórnin leggi til reglugerð sem er ætlað að stuðla að sjálfbærari neyslu. Þá er einnig að vænta þess að framkvæmdastjórnin kynni á svipuðum tíma nýja iðnaðarstefna fyrir ESB, enda er henni ætlað að byggja á hugmyndafræði hringrásarhagkerfisins. Hringrásarhagkerfið, úrgangsmál og neysla eru allt málaflokkar sem snerta sveitarfélög með beinum hætti og því mikilvægt að innleiðing og framkvæmd hringrásarhagkerfisins sé í fullu samráði við evrópsk sveitarfélög.

vi) Líffræðilegur fjölbreytileiki

Framkvæmdastjórn ESB stefnir á að kynna nýja áætlun varðandi líffræðilegan fjölbreytileika seinna á þessu ári eða í byrjun 2021. Áætlunin mun gilda til ársins 2030. Hlutverk sveitarfélaga þykir frekar óskýrt þegar kemur að áætlunum og markmiðssetningu í tengslum við líffræðilegan fjölbreytileika og hafa hagsmunasamtök evrópskra sveitarfélaga (CEMR) lagt til að þessu verði gerð betri skil í þeirri vinnu sem nú fer fram hjá framkvæmdastjórn ESB.

vii) Umhverfisvernd

Framkvæmdastjórn ESB hefur uppi áform um s.k. „zero-pollution“ áætlun, en með henni er stefnt að því að evrópskt umhverfi verði mengunarlaust. Þessu til viðbótar vinnur framkvæmdastjórn ESB nú að áttundu umhverfisáætlun ESB, en henni er ætlað að leiða starf og markmiðasetningu aðildarríkja ESB þegar kemur að umhverfisvernd. Þessu tengdu má nefna að framkvæmdastjórn ESB vinnur einnig að stefnumótun sem kölluð er „frá býli til gaffals“ og er henni ætlað að tryggja sjálfbær fæðukerfi fyrir íbúa Evrópu.

Brussel-skrifstofa mun fylgjast með framvindu Græna sáttmálans og stefnumótun og löggjöf sem honum fylgir og gæta hagsmuna íslenskra sveitarfélaga gagnvart honum.

Stafræn framtíð Evrópu er ofarlega á dagskrá framkvæmdastjórnar ESB árið 2020. Umhverfi okkar tekur örum breytingum þessi misserin vegna stafrænnar þróunar, sem hefur á stuttum tíma gerbreytt hvernig við störfum og hegðum okkur. Í breytingum sem þessum felast tækifæri en einnig áskoranir. Stafræn framtíð býr yfir miklum drifkrafti breytinga hvort sem horft er til viðskiptalífs eða samfélagsgerðar og tækifærin felast m.a. í nýjum samskiptaleiðum, bættri þjónustu og hvernig verslun og viðskiptum verður háttað í framtíðinni. Áskoranirnar snúa hins vegar m.a. að siðferðilegum álitefnum í tengslum við notkun á gervigreind við úrvinnslu persónulegra gagna.

Stafræn framtíð Evrópu er sýn ESB á það með hvaða hætti Evrópa geti orðið leiðandi á sviði stafrænnar tækni, bæði sem brautryðjandi við þróun tækninnar og ekki síður þegar kemur að því að nýta sér hana. Á sama tíma leggur ESB áherslu á mikilvægi þess að Evrópa haldi fast í þau grunngildi sem íbúar álfunnar búa við, sem snúa m.a. að siðferðilegum spurningum í tengslum við notkun á gervigreind við greiningu og miðlun upplýsinga.

Á árinu hafa verið kynntir tveir aðgerðahlutar í tengslum við Stafræna framtíð Evrópu. Í fyrsta lagi er um að ræða stefnumótun um meðferð upplýsinga, s.k. European Data Strategy, en henni er ætlað að tryggja að Evrópa geti nýtt sér sem best hið gríðarlega magn af upplýsingum sem ný tækni gerir bæði aðgengilegar og hugsanlega mjög gagnlegar á mörgum sviðum. Í öðru lagi birti framkvæmdastjórn ESB s.k. Hvítbók í tengslum við notkun á tækni sem byggir á gervigreind. Hvítbókin markar upphafið að samráðferli sem ætlað er að undirbúa framtíðar löggjöf innan ESB í tengslum við gervigreind. Sveitarstjórnarvettvangur EES-EFTA ályktaði um málið á nítjánda fundi vettvangsins sem fram fór í Hurdal í Noregi í júní 2019. Í ályktuninni eru sveitarfélög hvött til þess að fylgist grannt með þróun gervigreindar og að aðkoma þeirra sé tryggð þegar stefna stjórnvalda varðandi þessi mál er þróuð. Ljóst er að í þessari tækni felast mikil tækifæri fyrir sveitarfélög, m.a. í tengslum við bætta þjónustu við almenning. Í ályktuninni er einnig áréttað að huga þarf vel að mannréttindum í tengslum við notkun á gervigreind, t.d. hvað varðar heilsufarslegar upplýsingar og aðrar viðkvæmar persónuupplýsingar. Í þriðja lagi er væntanleg ný gerð um stafræna þjónustu, s.k. Digital Service Act. Með henni er stefnt að því að skilgreina betur lagalegan grunn ESB fyrir stafræna þjónustu og þá einkum með tilliti til smærri fyrirtækja. Þá þarf einnig að huga að rétti neytenda í tengslum við stafræna þjónustu. Gerðin er hluti af þjónustutilskipun ESB frá 2006 sem var innleidd á Íslandi árið 2011.

Stafræn tækni og öryggismál eru samofin mál og framkvæmdastjórn ESB stefnir á árinu á endurskoðum á tilskipun frá 2016 sem snýr að netöryggi, s.k. Directive on Security of Network and Information Systems. Tilskipunin sem um ræðir tekur gildi á Íslandi í september á þessu ári með lögum, nr. 78/2019, um öryggi net- og upplýsingakerfa mikilvægra innviða. Því er ljóst að endurskoðuð tilskipun mun að öllum líkindum einnig verða innleidd á Íslandi. Lögin eru þau fyrstu sem snúa að netöryggi á Íslandi og markmið þeirra er að auka öryggi net- og upplýsingakerfa sem koma við sögu í rekstri mikilvægra efnahags- og samfélagslegra innviða. Þá er þeim einnig ætlað að bæta viðnámsþrótt þessara innviða komi til netárása og samræma viðbrögð við slíkum atvikum. Lögin ná til margskonar starfsemi og þar á meðal starfsemi sem fellur undir starfsvið sveitarfélaga, m.a. rekstur heilbrigðisþjónustu, rafmagnsveita, hitaveita og vatnsveita. Þá er ljóst að næsta kynslóð farsímakerfa, s.k. 5G, mun gegna mikilvægu hlutverki í þeirri stafrænu byltingu sem nú á sér stað. ESB vinnur að 5G-væðingu Evrópu í samræmi við áætlun frá 2016 og er stefnt að því að eigi síðar en 2025 verði búið að 5g-væða öll aðildarríki ESB.

Brussel-skrifstofa mun fylgjast með framvindu þessara mála og miðla upplýsingum um þau.

Meðal þess sem framkvæmdastjórn ESB vinnur að um þessar mundir má nefna nýtt atvinnuleysisbótakerfi fyrir aðildarríki ESB. Þá vill framkvæmdastjórnin tryggja að íbúum álfunnar séu tryggð sanngjörn laun fyrir vinnuframlag sitt og að öll börn hafi aðgang að grundvallar réttindum eins og heilsugæslu og menntun. Einnig er í gangi vinna hjá framkvæmdastjórn ESB sem miðar að sanngjarnari skattlagningu í álfunni, þannig að t.d. alþjóðlegir tæknirisar greiði skatta í samræmi við gróða sinn í Evrópu. Þessi mál eru öll góðra gjalda verð, en þó hafa fyrirætlanir ESB um lágmarkslaun valdið töluverðum áhyggjum meðal Norðurlandaþjóðanna. Það er ákveðin hætta á því að áform ESB varðandi lágmarkslaun kunni að hafa neikvæð áhrif á norræna kjarasamningsmódelið. Tillögur ESB um lágmarkslaun eru í umsagnarferli eins og er og hafa hagsmunasamtökum evrópskra sveitafélaga (CEMR) fjallað um málið. Á fundi sérfræðinganefndar CEMR með framkvæmdastjórn ESB, sem haldinn var fyrr á árinu, lagði fulltrúi framkvæmdastjórnar ESB áherslu á að það sé ekki ætlun ESB að velta norræna kjarasamningsmódelinu úr sessi eða lögfesta ákveðinn lágmarkslaun í Evrópu. Þá liggur ekki enn þá fyrir hvort aðgerðir ESB í málinu verða í formi tilskipunar eða hvort einungis verði um leiðbeinandi tillögur að ræða, en ljóst er að málið er gríðarlega mikilvægt fyrir Norræna atvinnurekendur, og þ.m.t. sveitarfélög.

Brussel-skrifstofa mun fylgjast með framvindu þessara mála, gæta hagsmuna íslenskra sveitarfélaga og miðla upplýsingum.

Það eru margir sem telja að þessa dagana sé vegið að mörgum af þeim grunngildum sem ESB stendur fyrir. Hér er bæði vísað í það sem er í gangi vestan hafs og eins þá þróun sem nú á sér stað innan nokkurra aðildarríkja ESB. Viðbrögð framkvæmdastjórnar ESB við þessu er að setja evrópsk gildi, lýðræði og aukið samráð við borgara álfunnar á oddinn í starfsáætlun sinni. Þar sem sótt er að grunngildum ESB, ætlar framkvæmdastjórn ESB að beita öllum tiltækum ráðum til að tryggja að aðildarríki ESB virði lög og reglur sambandsins. Í innflytjendamálum mun framkvæmdastjórn ESB leggja áherslu á að aðildarríki ESB nái saman um nýtt fyrirkomulag varðandi fólksflutninga og hælisleitendur. Brýnt sé að stemma stigu við ólögmætum fólksflutningum, berjast gegn mansali, vernda rétt hælisleitanda og bæta aðstöðu flóttamanna. Þá má einnig nefna að forseti framkvæmdastjórnar ESB, Ursula von der Leyen, hefur þrýst á að ESB verði með herferð gegn kynbundnu ofbeldi, sem er aðkallandi mál víða í Evrópu og eitthvað sem COVID-19 faraldurinn hefur afhjúpað enn frekar. Til að auka lögmæti evrópsks lýðræðis er lagt til að framkvæmdastjórn ESB sé skylt að leggja fram löggjöf um tiltekið málefni þegar meirihluti þingmanna Evrópuþingsins óskar eftir því. Þá vill framkvæmdastjórn ESB stuðla að því að íbúar Evrópu taki virkan þátt í uppbyggingu Evrópusambandsins, meðal annars með virkri þátttöku í „Ráðstefnu um framtíð Evrópu“. Um er að ræða röð af samráðsviðburðum sem munu hefjast á þessu ári og standa yfir til 2022. Ljóst er að sú eldraun sem Evrópa og aðrar álfur heimsins ganga í gegnum um þessar mundir mun hafa áhrif á þessa vinnu og væntanlega niðurstöður hennar hvað varðar framtíð Evrópu og framtíðarskipulag ESB.

Brussel-skrifstofa mun fylgjast með framvindu þessara mála og miðla upplýsingum um þau.