Viðbótarframlög vegna þjónustu við fatlað fólk

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hefur samþykkt tillögu ráðgjafarnefndar Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga um úthlutun sérstaks viðbótarframlags á árinu 2018 vegna þjónustu við fatlað fólk, alls 200 m.kr.

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hefur samþykkt tillögu ráðgjafarnefndar Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga frá 25. apríl sl. um úthlutun sérstaks viðbótarframlags á árinu 2018 vegna þjónustu við fatlað fólk. Nemur upphæð framlagsins 200 m.kr.

Á grundvelli 2. gr. reglugerðar nr. 320/2018 um framlög Jöfnunarsjóðs vegna þjónustu við fatlað fólk á árinu 2018 er heimilt að veita sérstök viðbótarframlög til þjónustusvæða ef um verulega íþyngjandi kostnað er að ræða við rekstur málaflokksins.

Við útreikning framlaganna á árinu 2018 var gerð sú breyting að í stað þess að miða reiknaða útgjaldaþörf til þjónustusvæða við 4. flokk SIS-matsins og ofar, eins og gert hefur verið frá yfirfærslu árið 2011, er nú miðað við 5. flokk SIS-matsins og ofar. Við breytinguna tóku framlög til þjónustusvæða breytingum og er tilgangur með viðbótarframlaginu að koma til móts við þau þjónustusvæði sem urðu fyrir neikvæðum fjárhagslegum áhrifum við breytingarnar.

Til úthlutunar nú munu koma 170 m.kr. en þegar endanleg framlög ársins liggja fyrir í lok ársins mun uppgjör framlaganna fara fram.

Framlagið mun koma til greiðslu á næstu dögum.