Útsvar sem innheimt var í staðgreiðslu á tímabilinu frá febrúar til desember 2020 var 4% hærra en á sömu mánuðum í fyrra.
Í því skyni að lýsa þessari þróun er á mynd 1 sýnd mánaðarleg innheimta 2020 annars vegar og 2019 hins vegar. Hér kemur í ljós að fram undir mitt árið var staðgreiðsla svipuð bæði árin. Þegar leið að hausti varð staðgreiðslan meiri en árið áður, einkum í desember.
Á tímabilinu febrúar til júní var staðgreiðslan 2020 0,4% meiri en 2019. Hins vegar var staðgreiðslan 7,2% meiri á tímabilinu júlí til desember 2020 en á sömu mánuðum 2019. Þessi umskipti má rekja til aðgerða ríkisstjórnar í vinnumarkaðsmálum. Skiptir þar sköpum hin sk. hlutabótaleið og lenging tímabils tekjutengdra atvinnuleysisbóta.
En fleira kom til. Í því skyni að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldursins var gerð breyting á lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda. Breytingin færði launagreiðendum sem orðið hafa fyrir tekjufalli vegna faraldursins heimild til að fresta allt að þremur gjalddögum skatta, þ.m.t. útsvari, á tímabilinu apríl til desember 2020. Í lok árs var sveitarfélögum greitt útsvar, sem frestað hafði verið, alls 3,1 milljarður krónur. Rétt er að taka fram að sveitarfélögum hafði ekki verið gerð grein fyrir áhrifum frestunar greiðslna og komu greiðslur í lok árs þeim nokkuð á óvart.
Staðgreiðsla eftir landshlutum
Allmikill munur er á þróun staðgreiðslu útsvars milli landshluta, en eins og fram kemur á mynd 2 er hækkunin mest á Suðurlandi og minnst á Suðurnesjum. Staðgreiðsla útsvars hækkaði aðeins um 1,5% á tímabilinu febrúar til desember á Suðurnesjum, en um 4,6% á Suðurlandi og litlu minna á á Vestfjörðum og Norðurlandi vestra.
Tvennt þarf að hafa í huga við þennan samanburð milli landshluta; íbúaþróun og atvinnuleysi. Íbúaþróunin hefur verið mismunandi milli landshluta undanfarin ár. Í töflu hér að neðan er breyting miðuð við meðal íbúafjölda á fyrstu þremur ársfjórðungum hvors áranna 2019 og 2020. Mest er hlutfallsleg fjölgun á Suðurlandi, 3,3% og minnst á Vestfjörðum og Norðurlandi eystra, 0,1%. Atvinnuleysið hefur verið mest á Suðurnesjum en engu að síður hefur fólksfjölgun verið meiri þar en í flestum landshlutum. Lítil fólksfjölgun varð á Vestfjörðum og aukning atvinnuleysis þar einnig minna en í öðrum landshlutum.
Í mynd 2 er einnig sýnd breyting staðgreiðslu á íbúa og þar kemur fram að staðgreiðsla á mann lækkaði milli ára á Suðurnesjum en jókst um 4,5% á Vestfjörðum. Hækkun á mann á Suðurlandi var aðeins rúmlega 1% vegna mikillar fjölgunar íbúa.
Atvinnuleysi hefur mikil áhrif á útsvarsþróunina og er það rakið í mynd 3. Þar er sýnd á lárétta ásnum breyting staðgreiðslu á íbúa og á þeim lóðrétta breyting atvinnuleysis. Samband á milli þessara stærða er verulegt eins og leitnilínan sýnir; í þeim sveitarfélögum þar sem atvinnuleysi eykst umtalsvert milli ára þar verður lítil hækkun á staðgreiðslu útsvars á íbúa.