Umsögn um frumvarp um hækkun lágmarksiðgjalds til lífeyrissjóða og tilgreinda séreign

Margir sveitarstjórnarmenn muna án efa eftir lagabreytingum og uppgjöri lífeyrisskuldbindinga vegna A-deilda Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins og Brúar lífeyrissjóðs árið 2017.

Án efa er þar um að ræða eitt umfangsmesta samkomulag sem gert hefur verið á milli ríkis og sveitarfélaga. Til upprifjunar má benda á frétt á heimasíðu Brúar þar sem sjá má að heildargreiðslur launagreiðenda vegna uppgjörsins voru alls um 40 milljarðar króna.

Ástæða þess að þetta mál er nú rifjað upp er að fyrir Alþingi liggur frumvarp um breytingar á ýmsum lögum vegna hækkunar lágmarksiðgjalds til lífeyrissjóða og um svonefnda tilgreinda séreign. Samband íslenskra sveitarfélaga og Reykjavíkurborg hafa veitt umsagnir um þetta frumvarp þar sem lagst er gegn því að það verði lögfest. Bent er það í umsögnunum að algerlega skorti á að lagt sé mat á áhrif frumvarpsins á forsendur umrædds samkomulags og raunar hvergi vikið að því í frumvarpinu, auk fleiri ábendinga. Fjölmargar aðrar umsagnir hafa borist um málið sem einnig eru flestar neikvæðar. Augljóst er að frumvarp um þetta efni er með öllu ótímabært og skortir bæði á samráð um efni þess og mat á áhrifum þess, ekki síst á fjárhag ríkis og sveitarfélaga.

Ástæða er til þess að hvetja sveitarstjórnir til að kynna sér málið, bóka um að þær taki undir þá afstöðu sem fram kemur í áðurnefndum umsögnum og senda umsögn um málið til Alþingis.

Nánari upplýsingar um málið veita Sigurður Ármann Snævarr, sviðsstjóri hag- og upplýsingasviðs og Benedikt Valsson hagfræðingur á kjarasviði.