Umsögn um fjárlagafrumvarp 2023

Athygli er vakin á því að Samband íslenskra sveitarfélaga hefur sent Alþingi umsögn um frumvarp til fjárlaga 2023.

Í umsögninni kemur m.a. fram sú skoðun að það eigi að vera sameiginlegt keppikefli ríkis og sveitarfélaga að styðja við fjárhagslega sjálfbærni sveitarfélaga. Sambandið leggur höfuðáherslu á að fjárlaganefnd bregðist við eftirfarandi atriðum með nauðsynlegum breytingum á frumvarpinu:

  • Sveitarfélögin vantar 12-13 ma.kr. til að fjárrmagna þjónustu við fatlað fólk. Það er ekki tækt að samþykkja ný fjárlög án þess að taka á þessum vanda.
  • Nauðsynlegt er að hækka fjárframlög vegna NPA samninga og semja um framtíðarfyrirkomulag á fjármögnun þessa þjónustuforms.
  • Þung áhersla er lögð á fyrir aðra umræðu um fjárlög ársins 2023 komi fram tillaga um fjármmögnun á þjónustu við börn með fjölþættan vanda.
  • Auka þarf fjármagn til að styðja við menntun og velferð barna af erlendum uppruna.
  • Óskiljanlegt er að í frumvarpinu er ekki gert ráð fyrir fjármögnun samkomulags sem gert var á árinu um fjármögnun hjúkrunarheimila.
  • Tryggja þarf fjármögnun rammasamnings um húsnæðisuppbyggingu.

Augljóst er að fjármálaáætlun og fjárlög þurfa að endurspegla helstu áskoranir sem hið opinbera stendur frammi fyrir á hverjum tíma, þannig að fjárheimildir styðji við helstu umbótaverkefni ásamt því að stuðla að atvinnuuppbyggingu. Í þessu samhengi má sérstaklega nefna að á næsta ári þarf að ljúka innleiðingu hringrásarhagkerfis og að framundan er átak til að efla brunavarnir um allt land og að þörf er á að ráðstafa a.m.k. hluta af brunaöryggisgjaldi til sveitarfélaga. Á sama hátt er algerlega óviðunandi að ríkið stingi í eigin vasa stærstum hluta skipulagsgjalds, á sama tíma og HMS og sveitarfélögin eru í sameiginlegu átaki til að fjölga íbúðarhúsnæði. Varðandi eflingu atvinnustarfsemi er tilefni til að lýsa óánægju sveitarfélaga með hlutdeild þeirra í fiskeldisgjaldi.

Fulltrúar sambandsins hafa verið boðaðir á fund fjárlaganefndar 21. október og munu þar gera frekari grein fyrir umsögninni.

Nánari rökstuðning fyrir framangreindu, umfjöllun um fjárhagsstöðu sveitarfélaga of fleiri þætti frumvarpsins má finna í umsögn sambandsins.