Umsögn sambandsins um fyrirhugað frumvarp um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga

Samband íslenskra sveitarfélaga hefur veitt umsögn um áformaskjal í samráðsgátt stjórnvalda, um breytingar á lagaumhverfi Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga.

Í samráðsskjalinu kemur fram sú að jöfnunarsjóður endurspegli breytingar á sveitarstjórnarstiginu og að bæta gæði jöfnunarframlaga sjóðsins. Einnig sé þörf á að einfalda útreikninga og skipulag sjóðsins og bæta þar með heildarsýn yfir starfsemi hans.

Markmið lagasetningarinnar er að styðja ofangreinda stefnu, með eftirfarandi áherslum:

 1. Að sjóðurinn fylgi þróun sveitarfélagagerðarinnar
 2. Að sjóðurinn styðji betur við bakið á millistórum sveitarfélögum sem eru með flóknar útgjaldaþarfir
 3. Að í regluverki sjóðsins séu innbyggðir hvatar til sameiningar sveitarfélaga
 4. Að regluverkið stuðli enn frekar að sjálfbærni sveitarfélaga
 5. Að sjóðurinn styðji áfram við veikari byggðir með sérstökum framlögum
 6. Að leiðarljós breytinganna verði einföldun regluverks og aukið gagnsæi

Helsta breytingin verður nýtt einfalt og gagnsætt líkan sem sameinar framangreind framlög Jöfnunarsjóðs í eitt framlag. Nýtt jöfnunarlíkan mun byggja á þremur meginstoðum: jöfnun vegna ólíkra tekjumöguleika, jöfnun vegna ólíkrar útgjaldaþarfar og jöfnun vegna sérstakra áskorana. Mun útreikningur framlaga fara fram í þessari röð og hver meginstoð nýtir útkomu þeirrar sem á undan er sem byrjunarreit.

Umsögn sambandsins

Eins og rakið er í skjalinu hefur þegar farið fram umtalsvert samráð um inntak þeirra lagabreytinga sem nú eru fyrirhugaðar. Starfandi var sérfræðingahópur sem skilaði tillögum til tekjustofnanefndar og var sú vinna kynnt á haustmánuðum, m.a. á landsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga og á ársfundi Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Hafa fulltrúar sambandsins því átt þess kost að fylgjast með mótun tillagna um breytingar á jöfnunarkerfinu. Almennt hafa viðbrögð við þeim tillögum verið jákvæð.

Af hálfu sambandsins er megináhersla lögð á eftirfarandi atriði við frekari vinnslu málsins:

 • Að sérfræðingahópurinn verði kallaður saman til að veita ráðgjöf við gerð lagafrumvarps.
 • Að vandað verði til kynningar á fyrirhuguðu frumvarpi og að víðtækt samráð fari fram um málið.
 • Að við gerð tillagna um breytingar verði horft til þeirra áskorana sem sveitarfélög standa frammi fyrir, ásamt því að sérstaklega verði hugað að auknum stuðningi við sveitarfélög, m.a. í menntamálum og þjónustu við fólk í leit að alþjóðlegri vernd.
 • Að sveitarfélög verði upplýst tímanlega um áhrif hugsanlegra breytinga á framlögum jöfnunarsjóðs til þeirra. Breytingar sem hafa veruleg fjárhagsleg áhrif á einstök sveitarfélög verði innleiddar í áföngum og sveitarstjórnir fái eðlilegan fyrirvara til að aðlagast þeim.  
 • Að Jöfnunarsjóður sveitarfélaga hafi yfir að ráða fjármagni til að styðja myndarlega við sameiningar sveitarfélaga, enda fái sjóðurinn árlega sérstakt fjármagn á fjárlögum til að standa undir slíkum fjárframlögum. Fyrirséð er að útgjaldajöfnunarframlög muni skerðast á næsta ári ef ekki kemur til sérstök fjárheimild til að mæta þörf fyrir sameiningarframlög.

Áframhald vinnu við endurskoðun tekjustofna sveitarfélaga

Jafnframt leggur sambandið að sjálfsögðu áherslu á að ljúka þarf vinnu við endurskoðun á tekjustofnum sveitarfélaga, með það að markmiði að styrkja og breikka sjálfstæða tekjustofna sveitarfélaga.

Í viðræðum milli sveitarfélaga og ríkisins leggur sambandið sérstaka áherslu á að fá fjárhagslega leiðréttingu frá ríkinu til að standa undir útgjöldum sveitarfélaga vegna þjónustu við fatlað fólk. Gríðarlegur vöxtur útgjalda í málaflokknum er einkum til kominn vegna aukinna krafna  í löggjöf og reglum um hærra þjónustustig.

Einnig hafa fulltrúar sambandsins í tekjustofnavinnu bent á möguleika til að létta íþyngjandi verkefnum af sveitarfélögum til að stuðla að fjárhagslegri sjálfbærni þeirra. Mikilvægt er að frekara samtal fari fram um þær hugmyndir.

Sambandið hvetur sveitarstjórnir til þess að fylgjast vel með framvindu þessarar vinnu, taka þátt í samráði og setja fram sínar áherslur eftir því sem tilefni þykir til.