Umsögn sambandsins um fjárlagafrumvarpið

Samband íslenskra sveitarfélaga telur að margt megi betur fara í frumvarpi til fjárlaga 2019, eins og ítarleg umsögn þess um málið er til marks um. Auk þess sem frumvarpið þykir í heild sinni ógagnsætt og torskilið, eru athugasemdir gerðar við  fjölmörg málefnasvið, þ.á.m skatta og tryggingargjald, persónuvernd, almenningssamgöngur, húsnæðismál, þjónustu við fatlað fólk, ferðaþjónustu og fræðslumál, svo að eitthvað sé nefnt. Helstu athugasemdir hafa nú verið teknar saman í aðgengulegu yfirliti.

Samband íslenskra sveitarfélaga telur að margt megi betur fara í frumvarpi til fjárlaga 2019, eins og ítarleg umsögn þess um málið er til marks um. Auk þess sem frumvarpið þykir í heild sinni ógagnsætt og torskilið, eru athugasemdir gerðar við  fjölmörg málefnasvið. 

Helstu athugasemdir hafa nú verið teknar saman í aðgengilegu yfirliti:

Ógegnsætt og torskilið frumvarp
Í upphafi umsagnarinnar er gagnrýnt hversu ógegnsætt og torskilið frumvarpið er. Mikil áhersla er frumvarpinu lögð á reikningshald ríkisfjármála og fjallað í greinargerð í löngu máli um mismunandi reikningsstaðla. Þessari umfjöllun er ofaukið enda skilar hún engu. Á hinn bóginn er full ástæða til að skýra betur ýmis hugtök sem notuð eru í umfjöllun um málefnasvið þannig að hinn almenni lesandi geti gert sér skýra mynd af fjármálum ríkisins.

Skattar og tryggingargjald (málefnasvið 5)
Sambandið fagnar áformum um lækkun tryggingargjalds og leggur áherslu á að atvinnutryggingargjaldið verði ekki hækkað. Athugasemd er gerð við að sveitarfélögin greiði 0,5% af útsvari í staðgreiðslu til ríkisins sem innheimtuþóknun. Sambandið gerir kröfu um endurskoðun á því fyrirkomulagi.

Sveitarfélög og byggðamál (málefnasvið 8)
Sambandið leggur áherslu á að árlegar fjárheimildir Skipulagssjóðs verði hækkaðar. Með því móti væri hægt að koma til móts við aukinn kostnað sveitarfélaga vegna síaukins flækjustigs við gerð skipulagsáætlana.

Persónuvernd (málefnasvið 10.10)
Í umsögn sambandsins um frumvarp til persónuverndarlaga komu fram athugasemdir við ýmsa þætti sem telja má  íþyngjandi fyrir sveitarfélög, s.s. um að sektarákvæði giltu um opinbera aðila. Umsögninni fylgdi mat á kostnaði við innleiðingu upp á yfir 800 m.kr. og frambúðarkostnaði upp á 400 m.kr. Sambandið gerir kröfu um að sveitarfélögum verði endurgreiddur sá útgjaldaauki sem af lögunum leiðir.

Almenningssamgöngur (málefnasvið 11.1)
Mikilvægt er að sem fyrst liggi fyrir skýr vilji Alþingis til þess að treysta rekstrarforsendur almenningssamgangna utan þéttbýlis, þannig að unnt verði að tryggja framlengingu verkefnisins.

Ferðaþjónusta (málefnasvið 14)
Sambandið gerir kröfu um að fá botn í áform ríkisins um gistináttaskattinn. Á landsþingi sambandsins í september 2018 var það skýr afstaða þingfulltrúa að ákvörðun um að færa gistináttaskatt til sveitarfélaga verði tekin fyrir lok þessa árs.

Fræðslumál (málefnasvið 20-22)
Sambandið gerir kröfu um að fallið verði frá hagræðingarkröfu vegna samninga milli ríkis og sveitarfélaga um framlög til tónlistarfræðslu. Þá verði tryggð fjárheimild til að hraða framkvæmd ytra mats í grunnskólum. Loks er minnt á aðgerðaáætlun um nýliðun í kennarastétt sem er í mótun, en er enn ófjármögnuð.  

Hjúkrunar- og dagdvalarrými (málefnasvið 25.1)
Sambandið telur brýnt að framlengja rammasamning um þjónustu hjúkrunarheimila og hækka daggjöld þannig að þau standi undir þeirri þjónustu sem veita á skv. kröfulýsingu. Brýnt er að kröfulýsing vegna rammasamnings um dagdvalarými verði kostnaðarmetin  og gengið frá samningi á þeim grundvelli í kjölfarið. Sambandið leggur áherslu á að Sjúkratryggingar Íslands veiti styrki til kaupa á hjálpartækjum vegna húsnæðisúrræða fyrir fatlað fólk.

Þjónusta við fatlað fólk (málefnasvið 27.3)
Sambandið bendir á að sívaxandi kröfur til NPA þjónustu munu auka kostnað verulega og að óbreyttu verður örðugt að fjölga samningum svo ört sem að er stefnt.  Þá leggur sambandið áherslu á að kostnaði vegna sjúklinga í öndunarvél á einkaheimilum verði mætt með sérstökum fjárveitingum en verði ekki tekin af almennum fjárheimildum til NPA.

Sambandið krefst þess að fjárheimildir til búsetuúrræða fyrir börn með alvarlegar geð- og þroskaraskanir verði í samræmi við áður gefnar forsendur og veittar verði 500 m.kr. til verkefnisins árlega.

Stuðningur við einstaklinga, fjölskyldur og börn (málefnasvið 29.4)
Sambandið leggur áherslu á að ný gæða- og eftirlitsstofnun vegna félagsþjónustu fái nauðsynlegt fjárhagslegt svigrúm til þess að sinna verkefnum sínum. Þá bindur sambandið vonir við að með yfirstandandi skipulagsbreytingum í stjórnarráðinu verði ábyrgð á verkaskiptingu í velferðarmálum skýrð og skerpt.

Málefni innflytjenda og flóttafólks (málefnasvið 29.7)
Óskýrt er að mati sambandsins, að hve miklu marki fjárheimildum er ætlað að standa undir nýjum verkefnum tiltekinna ríkisstofnana við móttöku flóttafólks. 

Húsnæðisstuðningur (málefnasvið 31.1)
Sambandið leggur ríka áherslu á að framboð á hagkvæmu íbúðarhúsnæði verði aukið.