Umræðufundur um stofnun húsnæðis-sjálfseignarstofnunar sem þjóni sveitarfélögum á landsbyggð

Miðvikudaginn 26. janúar kl. 13-14 standa Samband íslenskra sveitarfélaga og Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) fyrir streymisfundi þar sem farið verður yfir forsendur samstarfs sveitarfélaga um stofnun húsnæðissjálfseignarstofnunar (hses.).

Markmið fyrirhugaðs félags verður að stuðla að uppbyggingu og framboði á almennum íbúðum utan höfuðborgarsvæðisins. Gert er ráð fyrir því að öll sveitarfélög utan höfuðborgarsvæðisins geti lagt íbúðir inn í félagið eða tekið þátt í uppbyggingu. Markmiðið er að ná fram stærðarhagkvæmni sem næst ekki með litlum hses. félögum sem eiga aðeins fáar íbúðir.

Á fundinum verður kynnt vinna sem farið hefur fram að undanförnu í góðu samstarfi HMS og sambandsins um drög að samþykktum fyrir félagið og önnur mikilvæg atriði sem vonandi munu auðvelda sveitarstjórnum að taka ákvörðun um þátttöku í félaginu.

Til fundarins er boðið fulltrúum sveitarfélaga sem sent hafa jákvæð svör um vilja til þátttöku í samstarfinu. Þau eru: Akranes, Borgarbyggð, Dalabyggð, Tálknafjarðarhreppur, Ísafjarðarbær,  Húnaþing vestra, Húnavatnshreppur, Sveitarfélagið Skagaströnd, Sveitarfélagið Skagafjörður, Dalvíkurbyggð, Fjallabyggð, Þingeyjarsveit, Skútustaðahreppur Vopnafjarðarhreppur, Múlaþing, Fjarðabyggð, Mýrdalshreppur, Skeiða- og Gnúpverjahreppur, Grímsnes og Grafningshreppur og Hrunamannahreppur.

Öðrum sveitarfélögum sem hafa áhuga á að kynna sér málið er einnig heimil þátttaka í fundinum.

Dagskrá og tengill inn á fundinn.