Katrín Ólafsdóttir lektor hjá HR fjallaði um stöðu efnahagsmála, helstu áskoranir og útlit á Fjármálaráðstefnu sveitarfélaganna.
Katrín Ólafsdóttir lektor hjá HR fjallaði um stöðu efnahagsmála, helstu áskoranir og útlit á Fjármálaráðstefnu sveitarfélaganna. Hún segir samdrætti spáð í hagvexti á þessu ári en útlit sé fyrir að það verði stutt samdráttarskeið. Þrátt fyrir áföll hafi gengi krónunnar verið nokkuð stöðugt en þegar litið væri til viðskiptakjara og raungengis sæist að samkeppnisstaða hefði verið betri og verðbólan væri að nálgast markmið Seðlabankans.
Hún benti á mikla óvissu og gat þess að meðal stærstu óvissuþáttanna væru samningar við opinbera starfsmenn sem fram undan eru. Þá væri ferðaþjónustan að takast á við samdrátt sem mætti rekja til færri flugferða hingað til lands í kjölfar gjaldþrots WOW air og gjaldþrot bresku ferðaskrifstofunnar Thomas Cook gæti einnig haft dóminóáhrif á ferðaþjónustufyrirtæki hér á landi. Hún sagði stóru breyturnar snúa að þeirri stöðu sem uppi væri í Bandaríkjunum og Bretlandi en hvernig mál í þessum löndum þróuðust vissi engin. „Pundið hefur verið að veikjast og við vitum ekkert hvaða áhrif Brexit mun hafa á okkur,“ sagði Katrín og bætti því við að forseti Bandaríkjanna væri óútreiknanlegur og gæti tekið upp á því að fara í stríð til að draga athyglina frá vandræðunum heima fyrir. Slíkt mynd strax hafa veruleg áhrif á olíuverð í heiminum og skila sér heim til Íslands.
„Íslenska hagkerfið stendur vel. Það gæti orðið smá samdráttur í landsframleiðslu en grunnstoðir hagkerfisins eru í góðu lagi. Hættan sem að okkur steðjar er aðallega utan i frá og hún fer vaxandi. Við vitum ekki hvað breytingar í umhverfinu verða miklar né hvenær þær verða. Staðan er fín eins og hún er en vitum ekki hvernig hún verður. Það gerir okkur erfitt að spá fyrir um hagvöxt hér á landi,“ sagði Katrín
Þegar horft er til lengri tíma sagði Katrín að umhverfiskostnaður sem mönnum væri tíðrætt um gæti líka falið í sér ákveðin tækifæri. Þannig gæti kostnaður sem varið er til aukinnar endurvinnslu og áherslu á umhverfismál einnig orðið til þess að laða að fólk á þá staði sem sinna þessum málum vel.
Hún sagði að fjórða iðnbyltingin myndi hafa ýmsar breytinga í för með sér á störf fólks en þær yrðu líklega minnstar í þjónustustugreinunum. Þá sagði hún tölur um nýliðun kennara og heilbrigðisstarfsfólks vera áhyggjuefni sem sveitarstjórnarfólk muni þurfa að bregðast við.