Starf sérfræðings í skólamálum laust til umsóknar

Samband íslenskra sveitarfélaga hyggst ráða sérfræðing í skólamálum. Á meðal verkefna og áherslna eru umsýsla með endurmenntunarsjóðum kennara og málefni leikskóla.

Sérfræðingurinn mun starfa ásamt skólamálafulltrúa, öðrum sérfræðingum sambandsins og fræðslumálanefnd, að margþættum og síbreytilegum verkefnum, sem einkum varða leik-, grunn- og tónlistarskóla, og vinna að hagsmunagæslu fyrir hönd sveitarfélaga á þeim sviðum.

Hæfniskröfur

Gerð er krafa um háskólapróf sem nýtist í starfi auk víðtækrar reynslu og þekkingar á fræðslumálum og áhuga á málefnum sveitarfélaga. Þekking og reynsla af opinberri stjórnsýslu er æskileg. Gott vald á íslensku máli í ræðu og riti og hæfni í framsetningu upplýsinga er skilyrði. Góð kunnátta í a.m.k. einu öðru Norðurlandamáli og ensku er æskileg. Góð  tölvuþekking, bæði til öflunar og úrvinnslu upplýsinga er skilyrði.

Leitað er að hæfum einstaklingi sem hefur til að bera frumkvæði, sjálfstæði, ríka þjónustulund, hæfni í mannlegum samskiptum, nákvæmni í vinnubrögðum og forystu- og skipulagshæfileika.

Um er að ræða fullt starf og æskilegt er að umsækjandi geti hafið störf sem fyrst.

Starf án staðsetningar

Föst starfsaðstaða getur verið utan höfuðborgarsvæðisins, að þeirri forsendu uppfylltri að mögulegt verði að tryggja fullnægjandi starfsaðstöðu nærri heimili umsækjanda en einnig á skrifstofu Sambands íslenskra sveitarfélaga í Reykjavík.

Umsóknarfrestur til 22. nóvember

Ferilskrá og kynningarbréf, merkt „Umsókn um starf sérfræðings á lögfræði- og velferðarsviði“, berist eigi síðar en mánudaginn 22. nóvember nk. til Sambands íslenskra sveitarfélaga, Borgartúni 30, pósthólf 8100, 128 Reykjavík, eða í tölvupósti til samband@samband.is.

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar veitir Guðjón Bragason, sviðsstjóri lögfræði- og velferðarsviðs, netfang: gudjon.bragason@samband.is, eða Valur Rafn Halldórsson sviðsstjóri rekstrar- og útgáfusviðs, netfang: valur@samband.is eða í síma 515-4900.

Vinnustaðurinn

Samband íslenskra sveitarfélaga er framsækinn vinnustaður sem býður upp á opið vinnuumhverfi, samheldinn starfsmannahóp og skapar starfsmönnum gott svigrúm til starfsþróunar. Samband íslenskra sveitarfélaga er heilsueflandi vinnustaður og leggur ríka áherslu á að vinnustaðurinn sé fjölskylduvænn. Boðið er upp á góða vinnuaðstöðu og kost á fjarvinnu eftir því sem við á. Umsækjendum er bent á að frekari upplýsingar um Samband íslenskra sveitarfélaga eru á heimasíðunni, www.samband.is. Þar er einnig að finna starfslýsingu fyrir starfið og mannauðsstefnu sambandsins.