Staðgreiðsla útsvars 2020

Nú liggja fyrir tölur um greitt útsvar í staðgreiðslu frá janúar til október á þessu ári. Um er að ræða útsvar sem lagt er á tekjur sem aflað var á fyrstu 9 mánuðum ársins, þar sem álagt útsvar í janúar er vegna tekna í desember 2019 og þær tekjur færast í ársreikning 2019.

Útsvar í staðgreiðslu hækkaði um 2% frá sömu mánuðum í fyrra. Á sama tíma hækkaði vísitala neysluverðs um 2,6% og launavísitala um 6%, en launakostnaður er um helmingur útgjalda sveitarfélaga. Í fjárhagsáætlunum fyrir árið 2020 gerðu sveitarfélög ráð fyrir að útsvarstekjur myndu hækka um 5%  og tekjuhlið fjárhagsáætlana þeirra er því í reynd hrunin. Í eftirfarandi töflu er sýnd breyting útsvars eftir landshlutum. Þar er borin saman innheimt staðgreiðsla á tímabilinu  febrúar til október árin 2019 og 2020, sem tekur til tekna sem aflað var á fyrstu 9 mánuðum viðkomandi ára.

Breyting útsvarstekna febrúar - október 2019 og 2020

Landið allt2,0%
Höfuðborgarsvæðið2,1%
Reykjavík1,0%
Önnur á höfuðborgarsvæðinu3,5%
Suðurnes-1,3%
Vesturland1,0%
Vestfirðir2,0%
Norðurland vestra3,3%
Norðurland eystra2,5%
Austurland2,9%
Suðurland3,7%

Eins og taflan ber með sér er þróunin nokkuð mismunandi milli landshluta. Vegna mikils atvinnuleysis lækka útsvarstekjur sveitarfélaga á Suðurnesjum milli ára um 1,3%, samanborið við hækkun á landinu öllu um 2%. Tekjubrestur er verulegur í þeim sveitarfélögum sem helst hafa reitt sig á ferðaþjónustu. Þannig lækkar útsvar um rösklega 10% milli ára í Mýrdalshreppi, um 7% í Skútustaðahreppi og tæplega 6% í Skaftárhreppi.