Staða kjaraviðræðna milli SNS og BSRB

Vegna umfjöllunar í fjölmiðlum um kjarasamningsviðræður Sambands íslenskra sveitarfélaga og BSRB vill sambandið koma eftirfarandi á framfæri:

  • Samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga (SNS) hefur lagt fram kjarasamningstilboð sem tryggir félagsmönnum BSRB hærri hlutfallshækkanir launa en forysta BSRB hefur nú þegar samið um við aðra opinbera vinnuveitendur.
  • Stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga fjallaði um kröfu BSRB á fundi sínum 28. apríl sl. þar sem kröfum BSRB var alfarið hafnað enda um tilhæfulausa kröfu að ræða vegna samnings sem er liðinn.
  • BSRB bauðst sami samningur og SGS undirritaði 2020 en hafnaði honum afdráttarlaust þrátt fyrir ítrekuð tilmæli SNS til BSRB um að samþykkja slíkan samning enda myndu félagsmenn þeirra að öðrum kosti verða af launahækkunum í ársbyrjun 2023. SNS hefur undir höndum skrifleg samskipti við forystu BSRB um þetta mál og þykir miður að öðru sé haldið fram í fjölmiðlum.
  • SNS hafnar alfarið fullyrðingum BSRB um að sveitarfélög séu að brjóta jafnréttislög. Ef BSRB telur svo vera hvetur sambandið þau til að fara með málið fyrir dómstóla þar sem það verður ekki leyst með fyrirsögnum í fjölmiðlum.
  • Sveitarfélögin hafa uppfyllt og efnt sína samninga að fullu gagnvart BSRB.
  • Samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga fer með fullt og óskorað umboð fyrir hönd stjórnar sambandsins í kjaraviðræðunum.

Viðræðurnar eru á viðkvæmu stigi og vonandi munu samningsaðilar ná saman á næstunni. Að öðru leyti vísar SNS í fréttatilkynningu frá því fyrir helgi.