Forysta BSRB vill ekki axla ábyrgð á eigin kjarasamningum

Forysta bæjarstarfsmannafélaga BSRB ber alfarið ábyrgð á því að félagsmenn þeirra fengu ekki launahækkanir um síðustu áramót líkt og forysta Starfsgreinasambands Íslands (SGS) samdi um árið 2020. Samband íslenskra sveitarfélaga hefur lagt fram tilboð sem tryggir félagsmönnum bæjarstarfsmannafélaga BSRB hærri hlutfallshækkanir launa en forysta bæjarstarfsmannafélaga BSRB hefur samið um við aðra opinbera vinnuveitendur.

Bera vinnuveitendur einir ábyrgð á jafnrétti?

Ein af megin áherslum sveitarfélaga er að greiða sömu laun fyrir sömu og/eða jafnverðmæt störf sem starfsfólk sveitarfélaga sinnir enda er óumdeilt að sveitarfélögin eru í fararbroddi á íslenskum vinnumarkaði þegar kemur að baráttunni gegn ómálefnalegum launamun. Allir kjarasamningar Sambands íslenskra sveitarfélaga bera þess merki og stöðugt er unnið að umbótum í þessa átt í allri kjarasamningagerð sveitarfélaga og þróun þess virðismatskerfis sem sveitarfélögin nota við starfsmat. Stéttarfélög starfsmanna sveitarfélaga styðja þessa stefnu sveitarfélaganna einnig almennt mjög vel, enda allra hagur.
Með því að hafna sama kjarasamningi og Starfsgreinasambandið hafði undirritað tæpum tveimur mánuðum áður við Samband íslenskra sveitarfélaga á árinu 2020 braut forysta bæjarstarfsmannafélaga þetta jafnrétti með því að gera kröfu um kjarasamning er að lokum skilaði lakari niðurstöðu fyrir félagsmenn þeirra.

Óbilgirni eða sjálfstæður samningsréttur?

Hvert og eitt stéttarfélag hefur sjálfstæðan samningsrétt og leggur Samband íslenskra sveitarfélaga ríka áherslu á að virða hann í hvívetna en bent skal á að sjálfstæðum samningsrétti fylgir einnig rík ábyrgð. Það er ekki ólögmætt að gera ólíka kjarasamninga með mismunandi gildistíma. Forysta bæjarstarfsmannafélaga BSRB lagði þunga áherslu á það í kjarasamningsviðræðum við Samband íslenskra sveitarfélaga árið 2020, að samningstími kjarasamnings næði til 31. mars 2023 og höfnuðu alfarið kjarasamningi með gildistíma til 30. september 2023 sem innihélt launatöflu 5.  Í ljósi þess er dapurlegt að málflutningur forystu bæjarstarfsmannafélaga BSRB sé nú á þann veg að Samband íslenskra sveitarfélaga sýni starfsfólki sveitarfélaga óbilgirni og mismuni þeim.  Vert er að hugleiða hvers vegna forysta bæjarstarfsmannafélaga BSRB fer ekki með þann ágreining sem hér um ræðir fyrir Félagsdóm, sem er réttur vettvangur til að fá úrskurð í ágreiningsmálum af þessu tagi.

Hvers vegna er gildistími samninga BSRB og SGS mismunandi?

Forsvarsmenn SGS sömdu, árið 2020, um kjarasamning sem gildir út september 2023 en þeim samningi fylgir m.a. launatafla 5 sem gildir frá síðustu áramótum út samningstímann.  Forystu bæjarstarfsmannafélaga BSRB var að sjálfsögðu boðinn sami samningur sem þau höfnuðu alfarið. Afleiðing þeirrar ákvarðanar að hafna tilboði Sambands íslenskra sveitarfélaga er sú að félagsmenn bæjarstarfsmannafélaga BSRB fengu ekki launahækkanir fyrstu þrjá mánuði yfirstandandi árs skv. launatöflu 5.  Það var mjög skýr krafa forystu bæjarstarfsmannafélaga BSRB að gildistími kjarasamninga þeirra væri til 31. mars 2023.

Hvers vegna getur ekki verið um afturvirkni að ræða?

Samningur bæjarstarfsmannafélaga BSRB og Sambands íslenskra sveitarfélaga rann út 31. mars 2023 og er að fullu efndur. Forysta bæjarstarfsmannafélaga BSRB krefst þess nú að nýr kjarasamningur, sem þeim stendur til boða, hafi gildistíma frá 1. janúar 2023.  Tveir kjarasamningar sömu samningsaðila geta ekki verið í gildi á sama tíma (þ.e. fyrstu þrjá mánuði yfirstandandi árs). Þegar talað er um afturvirkni við kjarasamningagerð á það almennt við þegar að kjaraviðræður hafa staðið yfir í nokkurn tíma og verið er að tryggja að samningur taki við af samningi.  Hins vegar er ekki um að ræða að nýr samningur geti verið afturvirkur inn á gildistíma þess samnings sem er liðinn og hefur verið að fullu efndur af hendi sveitarfélaga.

Hvaða samningstilboð er á borðinu?

Samband íslenskra sveitarfélaga hefur lagt fram kjarasamningstilboð, í samræmi við merki markaðarins, sem tryggir félagsmönnum bæjarstarfsmannafélaga BSRB hærri hlutfallshækkanir launa en forysta bæjarstarfsmannafélaga BSRB hefur nú þegar samið um við aðra opinbera vinnuveitendur.