Söfnun heimilisúrgangs hjá lögaðilum  

Í tengslum við lög nr. 103/2021 sem sett voru vegna innleiðingar hringrásarhagkerfis hafa sveitarfélög unnið að endurskoðun samþykkta um meðhöndlun úrgangs.

Við þá endurskoðun hafa komið fram athugasemdir af hálfu umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins um að sveitarfélög geti ekki afsalað sér ábyrgð á sérstakri söfnun heimilisúrgangs hjá lögaðilum. Í kjölfar þeirrar afstöðu var málið tekið til skoðunar hjá sérfræðingum sambandsins.  

Ritað var minnisblað um réttarstöðuna þar sem niðurstaðan var sú að ábyrgð sveitarfélaga á sérstakri söfnun heimilisúrgangs frá heimilum og lögaðilum væri hin sama en að sveitarfélögin hefðu mjög rúmar heimildir til að ákvarða fyrirkomulag söfnunar og flutnings. Þá komi lagaumhverfið ekki í veg fyrir það að samþykktir sveitarfélaga um meðhöndlun úrgangs geri mismunandi kröfur varðandi söfnun og flutning heimilisúrgangs frá lögaðilum annars vegar og heimilum hins vegar. Þannig að sveitarfélög annist einungis slíka þjónustu fyrir lögaðila ef þeir geta ekki keypt þjónustuna á almennum markaði, að því gefnu að útfærsla sé með þeim hætti að sveitarfélag geti virt það ábyrgðarhlutverk sem því er falið að lögum. Í þessu sambandi sé einnig mikilvægt að horfa til samkeppnissjónarmiða þ.e. hvort að til staðar sé samkeppnismarkaður um söfnun heimilisúrgangs hjá lögaðilum sem sveitarfélög þurfi að taka tillit til.   

Í þessu sambandi er mikilvægt að gera grein fyrir þeirri ábyrgð sem sveitarfélög hafa á þeim árangri sem þarf að nást við söfnun heimilisúrgangs, sem á við bæði heimilisúrgang sem verður til hjá heimilum sem og lögaðilum. Heppilegt gæti því verið, í samþykktarvinnu sveitarfélaga, að gera kröfu til lögaðila að sýna fram á að þeir séu í samningssambandi við verktaka sem safni heimilisúrgangi í þeim flokkum sem safna á samkvæmt samþykkt viðkomandi sveitarfélags auk þess sem skuldbinding sé til staðar í þeim samningi um að úrgangi sé ráðstafað með sambærilegum hætti og gert er hvað varðar heimilisúrgang frá heimilum. Í könnun sambandsins frá 2023 kom í ljós að sveitarfélögin eru að vinna að innleiðingu breytinga á sérstakri söfnun heimilisúrgangs frá heimilum. Sambærileg könnun á sérstakri söfnun hjá lögaðilum hefur ekki verið gerð. Sveitarfélög þurfa að tryggja að lögaðilar flokki til jafns við íbúa ef þau eiga að ná markmiðum sem í gildi eru um endurvinnslu heimilisúrgangs. Samkvæmt vef Umhverfisstofnunar, urgangur.is, er ekkert sveitarfélag að ná markmiðum sem í gildi eru um endurvinnslu heimilisúrgangs.