Skiptar skoðanir um fyrirhugaða breytingu á úthlutun tekjujöfnunarframlaga

Alls bárust sex umsagnir í samráðsgátt stjórnvalda um fyrirhugaða breytingu á reglugerð um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga en umsagnarfrestur rann út í gær, 20. október.

Meirihluti umsagna er jákvæður. Auk Sambands íslenskra sveitarfélaga telja Akureyrarbær, Sveitarfélagið Árborg og Sveitarfélagið Vogar að sú breyting sem ráðuneytið leggur til að verði gerð á 13. gr. reglugerðarinnar sé jákvæð.

Í umsögnum Reykjavíkurborgar og Samtaka atvinnulífsins eru hins vegar gerðar verulegar athugasemdir við reglugerðardrögin. Í báðum umsögnum er gerður fyrirvari um að ekki sé lagastoð fyrir fyrirhugaðri breytingu, auk þess sem gagnrýnt er að jöfnunarkerfið sé flókið og ógagnsætt.