Skiptar skoðanir um breytingar á Jöfnunarsjóði sveitarfélaga

Í Samráðsgátt stjórnvalda liggur nú fyrir drög að lagafrumvarpi um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Umsagnarfrestur rennur út 30. mars.

Alls hafa 18 umsagnir borist um lagafrumvarpið flestar frá sveitarfélögum vítt og breitt um landið. Markmiðið með endurskoðun laga um Jöfnunarsjóð er að bæta gæði jöfnunar, einfalda útreikninga og skipulag sjóðsins og að Jöfnunarsjóður fylgi þróun sveitarfélagagerðarinnar.

Flest sveitarfélög sem sent hafa inn umsögn líta jákvætt á frumvarpsdrögin og telja þau nauðsynleg, sanngjörn og verða til þess að útreikningur á jöfnunarframlögum verði einfaldari. Í umsögn Akureyrarbæjar er þó bent á að það sé ekki einfalt að vinna tillögur til breytinga á jöfnunarsjóði svo öllum líki.

Það er vandasamt að vinna tillögur sem öll 64 sveitarfélög landsins verða ánægð með en tillagan er að mati Akureyrarbæjar góð til þess að bæta gæði jöfnunar, einfalda útreikninga og skipulag sjóðsins þannig að hann þjóni sveitarstjórnarstiginu. … Akureyrarbær fagnar því sérstaklega að ríkisvaldið skilji það hlutverk og þá ábyrgð sem Reykjavíkurborg og Akureyrarbær bera á lands- og svæðisvísu með því að setja fram tillögu þess efnis að Jöfnunarsjóður eigi að styðja við hlutverk þessara tveggja sveitarfélaga sérstaklega.

Önnur sveitarfélög bæði stór og smá eru þó mótfallin tillögunum og gera verulegar athugasemdir við þau. Einhver benda á að augljóst markmið með breytingunum sé að greiða fyrir frekari sameiningu sveitarfélaga, önnur benda á að með breytingunum verði talsvert tekjutap sveitarfélaga sem erfitt verði að kjúfa. Í umsögn Strandabyggðar segir m.a.

Sveitarstjórn Strandabyggðar telur sjálfsagt og eðlilegt að endurskoða lög sem komin eru til ára sinna og sem eru ekki lengur talin sinna upprunalegu hlutverki sínu. … Skerðingin á framlögum til Strandabyggðar nemur 73 milljónum á næstu 3 árum. Það þarf ekki sérfræðing til að sjá, að þessi staða er óyfirstíganleg og engin lausn sjáanleg í fyrstu. Nema þá hin leynda lausn, sem þó er ekki svo leynd í allri umfjöllun um þessar breytingar; sameining sveitarfélaga.

Umsagnir um málið í Samráðsgátt stjórnvalda.