Á fundi ríkisstjórnarinnar þann 6. maí sl. var tillaga félags- og vinnumarkaðsráðherra um að skipa starfshóp sem á að móta tillögur varðandi kostnaðarskiptingu ríkis og sveitarfélaga vegna þjónustu við fatlað fólk samþykkt.
Hópurinn skal skila tillögum til ráðherra fyrir 15. október 2022.
Í starfshópnum verða fulltrúar frá forsætisráðuneyti, fjármála- og efnahagsráðuneyti, innviðaráðuneyti, mennta- og barnamálaráðuneyti, Sambandi íslenskra sveitarfélaga auk félags- og vinnumarkaðsráðuneyti. Í vinnu hópsins verður einnig horft til þeirra niðurstaða sem fram koma í skýrslu starfshóps um greiningu á kostnaðarþróun í þjónustu við fatlað fólk.
Í skýrslu starfshóps um heildarendurskoðun laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir koma fram fjölmargar tillögur sem skiptast á mörg málasvið, þ.e. húsnæðis- og búsetumál, atvinnumál, notendastýrða persónulega aðstoð (NPA), hvernig staðið er að samráði aðila og mat á stuðningsþörf. Mun félags- og vinnumarkaðsráðuneytið rýna efni þeirra tillagna og gera tillögu um frekari úrvinnslu og næstu skref. Við þá vinnu verða ákvæði í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna höfð til hliðsjónar. Skýrsla starfshópsins er mikilvægt innlegg í vinnu við lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, en kveðið er á um lögfestingu hans í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar.