Sex mánaða uppgjör stærstu sveitarfélaganna

Samband íslenskra sveitarfélaga hefur tekið saman sex mánaða uppgjör fjögurra stærstu sveitarfélaga landsins eða Reykavíkurborgar, Kópavogsbæjar, Hafnarfjarðarbæjar og Akureyrarkaupstaðar. Samantektin tekur til A-hluta starfseminnar, sem er sá hluti sem fjármagnaður er að stærstum hluta af skattfé. Um 60% landsmanna eru búsettir í þessum sveitarfélögum. Á heildina litið stefnir í að skuldahlutfall þeirra fari lækkandi.

Samband íslenskra sveitarfélaga hefur tekið saman sex mánaða uppgjör fjögurra stærstu sveitarfélaga landsins eða Reykavíkurborgar, Kópavogsbæjar, Hafnarfjarðarbæjar og Akureyrarkaupstaðar. Samantektin tekur til A-hluta starfseminnar, sem er sá hluti sem fjármagnaður er að stærstum hluta af skattfé. Um 60% landsmanna eru búsettir í þessum sveitarfélögum. Á heildina litið stefnir í að skuldahlutfall þeirra fari lækkandi.

Helstu rekstrartölur eru þær að heildartekjur þessara sveitarfélaga hækka um 9,1%; fóru úr 89,0 ma.kr. í 97,1 ma.kr. á fyrstu sex mánuðum ársins borið saman við fyrri helming síðasta árs.

Þá hækkuðu útsvars- og fasteignaskattstekjur um 8,6 %, framlag jöfnunarsjóðs um 3,7% og aðrar tekjur um 13,8%. Til samanburðar má nefna að vísitala neysluverðs hækkaði þessum tíma um 2,4% (án húsnæðisliðar lækkaði vísitalan um 0,2%) og launavísitala um 6,8%.

Rekstrargjöld jukust um 8,7%; fóru á þessum tíma úr 83,1 ma.kr. í 90,3 ma.kr. Breyting lífeyrisskuldbindinga var tæpum milljarði minni en árið áður. Annar rekstarkostnaður hækkaði um 12,4% og afskriftir um 6,7%. Framlegð (EBITDA) þessara sveitarfélaga batnaði um 1,1 ma.kr. sem þó má rekja að mestu til minni hækkunar lífeyrisskuldbindinga.

Meginniðurstaðan er þá sú, að rekstur sveitarfélaganna var jákvæður um samtals 4,5 ma.kr. Samsvarar það um 4,6% af tekjum, sem er ívið lakari niðurstaða en í fyrra þegar þetta hlutfall nam 5,3%. Rekstrarniðurstaða var engu að síður betri í öllum fjórum sveitarfélögum en áætlanir gerðu ráð fyrir.

Heildareignir þessara sveitarfélaga námu í júnílok samtals 321,1 ma. kr. og höfðu þær hækkað um 12,2 ma.kr. frá áramótum. Skuldir og skuldbindingar hækkuðu á sama tíma um 7,7 ma.kr. og námu í júnílok um 196 ma.kr. Nemur hækkunin 4,1%. Þar sem tekjur hækkuðu um 9,1% stefnir að óbreyttu í að skuldahlutfall þessara sveitarfélaga lækki á milli áranna 2017 til 2018.

Þá nam veltufé frá rekstri 8,7 ma.kr. eða um 9% af heildartekjum, samanborið við 12% í fyrra. Fjárfestingar í varanlegum rekstrarfjármunum jukust verulega eða úr 6,5 ma.kr. um 11,7 ma.kr. og er hækkunin um 80%. Fjármögnun þeirra kemur að hluta til af gatnagerðagjöldum og sölu byggingaréttar (fært sem aðrar fjárfestignarhreyfingar).