Fjáramálareglur sveitarstjórnarlaga torvelda fjárfestingar þegar illa árar en hvetja til aukinna fjárfestinga í góðæri. Skoða þarf betur þetta samspil, sem er að mati Sigurðar Á. Snævarr, sviðsstjóra hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, óheppilegt til langs tíma fyrir hagþróun.
Fjáramálareglur sveitarstjórnarlaga torvelda fjárfestingar þegar illa árar en hvetja til aukinna fjárfestinga í góðæri. Skoða þarf betur þetta samspil, sem er að mati Sigurðar Á. Snævarr, sviðsstjóra hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, óheppilegt til langs tíma fyrir hagþróun í landinu.
Í máli Sigurður kom m.a. fram að íslenska þjóðarbúið er statt á toppi hagsveiflunnar. Tekjur sveitarfélaga hækkuðu á síðasta kjörtímabili um 35% og skuldir þeirra lækkuðu úr 114% af tekjum í 106%. Á móti komi að laun og launatengd gjöld hafa hækkað umtalsvert, m.a. vegna uppgjörs lífeyrisskuldbindinga við Brú. Þá hafi fjárfestingar lítið aukist.
Þá vék Sigurður að fjármálareglum sveitarstjórnarlaga og sagði hann þær mikilvægan þátt í að stuðla að ásættanlegri afkomu sveitarfélaga. Þeim tilgangi þjóni svo ekki síður samkomulag ríkis og Sambands íslenskra sveitarfélaga um afkomu og efnahag sveitarfélaga.
Samkomulagið bindi ekki hendur einstakra sveitarfélaga, en víki fjármál þeirra verulega frá markmiðum þess fara af stað viðræður á milli samningsaðila um aðgerðir sem snúið geti þeirri þróun við.
Helstu markmið samkomulagsins eru þau, að heildarafkoma A-hluta í rekstrarreikningi sveitarfélaga verði jákvæð um 0,2% af vergri landsframleiðslu árin 2019-2023 og að skuldir A-hluta lækki á sama tíma úr 113% í um 103%. Einnig er stefnt að því að fjárfestingar A-hlutans séu sjálfbærar og feli að jafnaði ekki í sér aukna skuldsetningu.
Um áskoranir sveitarfélaga í fjármálum á næstu árum, þá er brýnt að mati Sigurðar að þetta óheppilega samspil fjármálareglna í lögum og fjárfestinga sveitarfélaga verði endurskoðað. Á heildina litið standi sveitarfélögin frammi fyrir óvissu. Erfitt sé að segja fyrir um þróun í ferðaþjónustu og niðurstöðu kjarasamninga, svo að dæmi séu tekin. Það gæti því orðið fjör í fjármálum sveitarfélaga á næstu misserum.