Samráð og samstarf í opinberum rekstri

Samband íslenskra sveitarfélaga hefur sent frá sér umsögn um fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2019-2023. Fjármálaáætlun nýrrar ríkisstjórnar lýsir forgangsröðun þeirra verkefna sem áformuð eru og fjármögnun þeirra. Í umsögninni er meðal annars farið fram á að gistináttagjald renni til sveitarfélaga þegar á næsta ári.

Samband íslenskra sveitarfélaga hefur sent frá sér umsögn um fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2019-2023. Fjármálaáætlun nýrrar ríkisstjórnar lýsir forgangsröðun þeirra verkefna sem áformuð eru og fjármögnun þeirra.

Í umsögnin kemur fram að sambandið telur að lög um opinber fjármál hafi bætt samráð ríkis og sveitarfélaga um fjármál og að það hafi hrundið af stað margvíslegum úrbótum í opinberum rekstri. Nýjasta dæmi þess sé samráðsnefnd sem nýlega var sett á laggirnar um ábyrgðar- og verkaskiptingu. Væntir sambandið mikils af því samráði, ekki hvað síst í baráttunni gegn „gráum svæðum“, en svo nefnist opinber þjónusta þar sem ábyrgð og verkaskipting milli ríkis og sveitarfélaga er óljós.

Af hálfu sambandsins eru hagsmunir sveitarfélaga af skilvirku og réttlátu skattkerfi, einföldun framfærslukerfa og greining á víxlverkun innan ólíkra bótakerfa á meðal þeirra atriða sem lögð er áhersla á. Í umsögninni er bent á, að sveitarfélögin greiði ríkinu innheimtuþóknun vegna staðgreiðslu útsvars sem nemur hærri fjárhæð en öllum innheimtukostnaði ríkisins samanlagt. Sambandið fer fram á viðræður við ríkisvaldið vegna þess og gerir kröfu um að þóknunin lækki í takt við áform ríkisins um lækkun innheimtukostnaðar.

Af öðrum áhersluatriðum má nefna aukin fjárframlög til sóknaráætlana landshluta, að gistináttagjald renni til sveitarfélaga þegar á næsta ári og að greiningu á lagaumhverfi vindorkuvera ljúki sem fyrst, með beinum tillögum um endurskoðun á skattlagningu orkumannvirkja.

Einnig er áhersla lögð á að hraða þurfi endurskoðun samninga við landshlutasamtök um almenningssamgöngur og að fjármagni verði veitt til þess að niðurgreiða fráveituframkvæmdir sveitarfélaga. Framkvæmdum við ofanflóðavarnir verði jafnframt hraðað.

Þá er bent á að áformað brottfarargjald muni hafa neikvæð áhrif þess á samskeppnisstöðu innanlandsflugs nema mildandi aðgerðir komi til. Aðgerðin fari mjög líklega á svig við  þá stefnu ríkisstjórnarinnar að innanlandsflug verði gert að hagkvæmari kosti fyrir íbúa landsbyggðarinnar en nú er, svo að nokkur atriði séu nefnd af þeim sem lögð er áhersla á í umsögninni.

Innanlandsflug_1525363394375Áhrif brottfarargjald á innanlandsflug er á meðal þess sem vikið er að í umsögn sambandsins um fjármálaætlun ríkisstjórnarinnar 2019-2023. (Ljósm. hringbraut.is)