Samkomulag um fjármál 2024-2028

Samkomulag um afkomu og efnahag sveitarfélaga til áranna 2024 til 2028 hefur verið undirritað. Lög um opinber fjármál kveða á um að ríkið og sambandið f.h. sveitarfélaga geri árlega með sér samkomulag til næstu ára við mótun fjármálaáætlunar.

Helstu markmið um fjármál í  samkomulagsins eru eftirfarandi:

 • Dregið verði úr halla hins opinbera yfir tímabil fjármálaáætlunar og stefnt að því að rekstur hins opinbera verði kominn í jafnvægi í lok tímabilsins sem áætlunin tekur til. Með þeim hætti er stefnt að því að hækkun skulda sem hlutfall af vergri landsframleiðslu stöðvist fyrir árslok 2026.
 • Stefnt er að því að afkoma sveitarfélaga batni og heildarafkoma sveitarfélaga fari þannig úr því að vera neikvæð um 0,4% af landsframleiðslu í lítils háttar afgang í lok áætlunartímabilsins.
 • Hækkun á skuldum sveitarfélaga sem hlutfall af VLF stöðvist eigi síðar en fyrir árslok 2026.  Fjárfesting sveitarfélaga verði meiri en sem nemi rekstrarafgangi, en þó þannig að varfærni sé gætt til að markmið um að stöðva skuldasöfnun náist.

Rétt er að taka fram að fjármálaáætlun er byggð á framsetningu fjármála hins opinbera á grunni þjóðhagsreikninga sem er töluvert frábrugðin framsetningu í ársreikningum sveitarfélaga. 

Sambandið mun hvetja sveitarfélög til að:

 • Tryggja að launaþróun stuðli að lækkun verðbólgu og vaxta.
 • Tryggja að fjölgun starfa verði ekki umfram það sem eftirspurn eftir lögbundinni starfsemi krefst.
 • Stuðla að jöfnu og nægilegu framboði nýs húsnæðis sem endurspegli eftirspurn og taki tillit til lýðfræðilegrar þróunar.
 • Haga fjárfestingum sínum þannig að þær stuðli að því að fjármagnsstofn þeirra á hvern íbúa vaxi á tímabilinu.

Áfram munu aðilar vinna að ákveðnum sameiginlegum verkefnum sem um var samið  við gerð samkomulags áranna 2021-2025.

 • Greining á tekjustofnum sveitarfélaga og mati á nauðsynlegum aðgerðum til að stuðla að fjárhagslegri sjálfbærni sveitarfélaga. 
 • Endurmat útgjalda og framtíðarfjármögnun þjónustu við fatlað fólk.
 • Fjármögnun þjónustu við aldrað fólk með sérstöku tilliti til fjármögnunar á stofn- og rekstrarkostnaði húsnæðis. 
 • Lóðaúthlutun sveitarfélaga til starfsemi á vegum hins opinbera t.d. hjúkrunarheimila, framhaldsskóla o.fl.
 • Uppbygging húsnæðis á grundvelli rammasamnings ríkis og sveitarfélaga.
 • Kostnaður og umsýsla við innheimtu útsvars.
 • Fækkun grárra svæða í þjónustu hins opinbera.
 • Samstarfi ríkis og sveitarfélaga við stafræna umbreytingu og nýtingu á vefsvæðinu island.is.
 • Traustari og bættur talnagrunnur um fjármál sveitarfélaga til að treysta forsendur fjármálastefnu og fjármálaáætlunar. 
 • Birting upplýsinga um þróun fjármála sveitarfélaga m.v. fjármálareglur sveitarstjórnarlaga og fjárhagsáætlanir sveitarfélaganna. Upplýsingar birtar niður á einstök sveitarfélög auk samanburðar við sett afkomumarkmið.

Í samkomulaginu kemur fram að samkomulagið bindur ekki hendur einstakra sveitarfélaga. Engu síður segir í samkomulaginu að staðfesting Sambands íslenskra sveitarfélaga á því feli í sér að sambandið muni kynna efni samkomulagsins fyrir sveitarfélögum. Sambandið muni jafnframt mælast til þess við sveitarfélögin að þau skipi fjármálum sínum í samræmi við forsendur og markmið samkomulagsins.  

Undirritun fulltrúa Sambands íslenskra sveitarfélaga fylgir svohljóðandi bókun:

Fyrirliggjandi fjármálaáætlun byggir m.a. á fjárhagsáætlunum sveitarfélaga sem markast af áralöngum hallarekstri sem má að stórum hluta rekja til sívaxandi útgjalda vegna málaflokks fatlaðs fólks. Bregðast verður við til að sveitarfélögin geti sinnt sínum fjölbreyttu verkefnum á markvissan hátt. Í samkomulagi ríkis og sveitarfélaga frá 16. desember 2022 er vísað til starfshóps ríkis og sveitarfélaga sem skipaður var sl. sumar og er ætlað að móta tillögur um kostnaðarskiptingu ríkis og sveitarfélaga í málaflokknum á grundvelli kortlagningar á kostnaðarþróun málaflokksins undanfarin ár. Starfshópurinn skal ljúka störfum eigi síðar en 30. apríl 2023. Hópnum er einnig falið að setja fram valkosti um hvernig stuðla megi að hagkvæmni í þjónustunni og hægja á útgjaldavexti. Munu fulltrúar ríkis og sveitarfélaga fara yfir og ræða tillögur starfshópsins þegar þær liggja fyrir. Mikilvægt er að leiða þetta mál til lykta. Sambandið telur að í fjármálaáætlun verði að gera ráð fyrir veglegu viðbótarfjármagni frá ríkinu til að standa undir útgjöldum vegna þjónustu við fatlað fólk. Myndi slík viðbótarfjármögnun breyta afkomu sveitarfélaga næstu ár m.v. fyrirliggjandi áætlanir á þann veg að veltufé frá rekstri myndi aukast sem nýta mætti til að auka við nauðsynlega innviðauppbyggingu og lækkun skulda. Niðurstöður í afkomuspá sveitarfélaga í þessu samkomulagi eru ekki ásættanlegar og því samþykktar með fyrirvara af hálfu sambandsins í ljósi þeirra nauðsynlegu breytinga sem framangreind viðbótarfjármögnun myndi hafa.

Samkomulagið í heild er að finna hér.