Samkomulag um afkomumarkmið og efnahag sveitarfélaga 2023-2027

Í lögum um opinber fjármál er kveðið á um í 11.gr að við mótun fjármálaáætlunar skuli ráðherra og sambandið f.h. sveitarfélaga gera með sér samkomulag um afkomu og efnahag sveitarfélaga. Nýtt samkomulag aðila var undirritað í dag.

Karl Björnsson, framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga, Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, og Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra undirrituðu samkomulagið í dag.

Helstu atriði samkomulagsins eru eftirfarandi.

  • Dregið verði úr halla hins opinbera yfir tímabil fjármálaáætlunar. Í lok tímabilsins, árið 2027, verði halli á rekstri hins opinbera ekki meiri en 0,7% af VLF. Hækkun opinberra skulda sem hlutfall af vergri landsframleiðslu (VLF) stöðvist fyrir árslok 2026.
  • Afkomuhorfur sveitarfélaga hafa batnað frá fyrri áætlunum. Samkomulagið gerir ráð fyrir að dregið verði úr hallarekstri A-hluta sveitarfélaga yfir tímabilið. Halli á heildarafkomu sveitarfélaga fari þannig úr 0,7% af VLF árið 2022 í 0,4% af VLF 2023, 0,3% af VLF árin 2024 og 2025 og loks 0,2% halla árin 2026 og 2027.
  • Þróun launakostnaðar í afkomuáætlun áranna 2022–2024 er byggð á fjárhagsáætlunum sveitarfélaga. Árin þar á eftir er gengið út frá þeirri forsendu að laun hækki árlega um 1,5% umfram verðbólgu.
  • Rekstrarafkoma sveitarfélaga verði jákvæð og batni yfir tímabilið. Fjárfesting verði meiri en sem nemi rekstrarafgangi. Varfærni sé þó gætt til að markmið um að stöðva skuldasöfnun sem hlutfall af VLF á tímabilinu náist.
  • Hækkun á skuldum sveitarfélaga sem hlutfall af VLF stöðvist eigi síðar en fyrir árslok 2026. Gangi forsendur fjármálaáætlunarinnar eftir er ekki útlit fyrir að sveitarfélögin þurfi að grípa til sérstakra ráðstafana til að ná settu markmiði um skuldir.

Rétt er að taka fram að fjármálaáætlun er byggð á framsetningu fjármála hins opinbera á grunni þjóðhagsreikninga sem er töluvert frábrugðin hefðbundnum ársreikningum sveitarfélaga. 

Í samkomulagi um markmið um afkomu og efnahag sveitarfélaga fyrir árin 2021–2025 sem undirritað var haustið 2020 var fjöldi verkefna tilgreindur sem aðilar hugðust vinna að í sameiningu að á gildistíma þess samkomulags. Þar á meðal voru heildarendurskoðun á tekjustofnum sveitarfélaga og á regluverki Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga, auk endurmats á útgjöldum vegna hjúkrunarþjónustu og annarrar þjónustu við aldraðra. Mörg þessara verkefna eru enn í vinnslu og er samkomulag um að áfram skuli unnið að þeim undir yfirumsjón samstarfsnefndar ríkis og sveitarfélaga, Jónsmessunefndar. 

Í samkomulaginu kemur fram að samkomulagið bindur ekki hendur einstakra sveitarfélaga. Engu síður segir í samkomulaginu að staðfesting Sambands íslenskra sveitarfélaga á því feli í sér að sambandið muni kynna efni samkomulagsins fyrir sveitarfélögum. Sambandið muni jafnframt mælast til þess við sveitarfélögin að þau skipi fjármálum sínum í samræmi við forsendur og markmið samkomulagsins.