Rekstrarkostnaður á heilsdagsígildi í leikskólum sveitarfélaga 2022

Út er komið yfirlitsskjal um rekstrarkostnað á hvert heilsdagsígildi leikskólabarna eftir stærð leikskóla árið 2022. Um er að ræða beinan rekstrarkostnað á leikskóla sveitarfélaga.

Miðlægur kostnaður t.d. vegna skólaskrifstofa er ekki meðtalinn. Að gefnu tilefni er bent á að margvíslegar ástæður geta orsakað mun á lykiltölum eftir skólum og/eða sveitarfélögum. Hafa ber í huga að landfræðilegar aðstæður, eða breytur eins og samsetning starfsfólks í skóla getur haft áhrif á lykiltölur og því gagnlegt fyrir sveitarfélög að kanna nánar í hverju munurinn felst.

Reiknaður er rekstrarkostnaður með og án innri leigu. Árið 2022 var rekstrarkostnaður að frádregnum þjónustutekjum að meðaltali rúmlega 3,2 m.kr. á hvert heilsdagsígildi. Ef ekki er tekið tillit til þjónustutekna er rekstrarkostnaður á hvert heilsdagsígildi að meðaltali 3,5 m.kr. Mikill munur er á rekstrarkostnaði á hvert heilsdagsígildi eftir stærð leikskóla.

Hlutfall þjónustutekna af rekstrarkostnaði leikskóla er 10,2%. Til samanburðar má geta þess að árið 2004 var sama hlutfall um 28%.

Þá var launakostnaður 79% af rekstrarkostnaði leikskóla árið 2022.

Rekstrarkostnaður á heilsdagsígildi í leikskólum sveitarfélaga árið 2022.