Ríkiskaup hafa innleitt rafrænt útboðskerfi, sem ætlað er að einfalda aðgengi að opinberum útboðum og draga úr umsýslukostnaði kaupenda og seljenda. Má þar nálgast endurgjaldslaust útboðsauglýsingar og útboðsgögn og standa vonir til þess að þátttaka aukist samfara þessu nýja og aðgengilega útboðskerfi.
Ríkiskaup hafa innleitt rafrænt útboðskerfi, sem ætlað er að einfalda aðgengi að opinberum útboðum og draga úr umsýslukostnaði kaupenda og seljenda. Má þar nálgast endurgjaldslaust útboðsauglýsingar og útboðsgögn.
Vonir standa til þess að þátttaka aukist samfara þessu nýja og aðgengilega útboðskerfi. Í stað þess að koma tilboðum til Ríkiskaupa á pappír í lokuðum umslögum, eins og verið hefur, gera bjóðendur nú rafrænt tilboð. Með þessu nýja lagi verður öll umsýsla einfaldari og fljótlegri. Tilboðstími útboða styttist, gagnaframsetning verður skilvirkari og úrvinnsla að mestu rafræn.
Sveitarfélögum er velkomið af hálfu Ríkiskaupa, að nýta sér nýja rafræna útboðskerfið. Eflaust mun það í mörgum tilvikum koma sér vel, ekki hvað síst með hliðsjón af því, að þann 31. maí nk. taka gildi nýjar viðmiðunarfjárhæðir.
Sveitarfélögin geta nýtt útboðskerfið með þrenns konar hætti:
- Ríkiskaup koma fram fyrir hönd viðkomandi sveitarfélags og annast útboðsgerð og úrvinnslu í samstarfi við það.
- Ríkiskaup annast uppsetningu gagna í kerfinu fyrir hönd sveitarfélags, sem fær svo niðurstöður afhentar að útboði loknu.
- Sveitarfélag kaupir sjálfstæðan aðgang að kerfinu og nýtur með því móti góðs af forvinnu Ríkiskaupa s.s. íslenskrar aðlögunar og þýðinga.
Nánari upplýsingar um aðgang að nýja útboðskerfinu eru veittar á ragnar@rikiskaup.is
Af öðrum breytingum sem unnið hefur verið að á vegum Ríkiskaupa, með það fyrir augum að einfalda opinber innkaup, má nefna að nálgast má nú öll útboð á vegum ríkisins, sveitarfélaga og fyrirtækja í opinberri eigu á einum stað á utboðsvefur.is. Er þessi framsetning í samræmi við reglugerð nr. 178/2018. Jafnframt er minnt á, að sú skylda að auglýsa útboð á auglýsingavettvangi útboðsvefsins á einnig við um sveitarfélög.
Þá eru á útboðsvefnum aðgengilegar upplýsingar um greidda reikninga hjá nokkrum sveitarfélögum og ríkinu.