Þegar vel árar á að lækka skuldir

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, ítrekaði í ávarpi sínu á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga í dag, áhuga sinn á því að efla sveitarstjórnarstigið með fækkun og stækkun sveitarfélaga. Ráðherra hvatti enn fremur til þess að sveitarfélögin sættu lagi og lækkuðu enn frekar skuldir sínar, nú þegar vel árar og lagði til að núverandi skuldahlutfall í lögum lækki úr 150% í 120%.

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, ítrekaði í ávarpi sínu á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga í dag, áhuga sinn á því að efla sveitarstjórnarstigið með fækkun og stækkun sveitarfélaga. Ráðherra hvatti enn fremur til þess að sveitarfélögin sættu lagi og lækkuðu enn frekar skuldir sínar, nú þegar vel árar og lagði til að núverandi skuldahlutfall í lögum lækki úr 150% í 120%.

Á máli ráðherra mátti skilja að samgönguáætlun ríkisstjórnarinnar, sem hann kynnti nú nýlega, hefði hlotið  misjafnar undirtektir og tók hann undir að gera mætti betur í þessuum efnum. Þörfin fyrir auknum fjárfestingum í samgöngum væri veruleg og kröfur sveitarstjórnarmanna fyrir sína heimabyggð væru að sama skapi skiljanlegar. Menn verði þó að geta skilið á milli góðra og slæmra frétta í þessum efnum. 

Góðu fréttirnar séu þær að samgönguáætlun er raunhæf áætlun og fullfjármögnuð. Ekki er um óskalista að ræða heldur fjármagnaða aðgerðaráætlun.

Jákvæð þróun efnahagsmála er mikil og góð. Samhliða hafa skuldir ríkissjóðs lækkað um 658 ma.kr. á síðustu sex árum. Staða heimilanna hafi einnig tekið stórstígum breytingum til hins betra. 

Þá er árangur sveitarfélaga, að mati ráðherra, ekki síður eftirtektarverður, en samanlagt skuldahlutfall A- og B-hluta hafi frá árinu 2009 lækkað úr 222% af tekjum sveitarfélaga að jafnaði í 110%. Fyrir vikið séu skuldir og skuldbindingar sveitarfélaga  nú með svipuðu móti og á árinu 2007. 

Þennan árangur má m.a. þakka því, að sveitarstjórnarfólk tók fjármálin föstum tökum í kjölfar hrunsins, auk þess sem nýjar fjármálareglur í sveitarstjórnarlögum frá árinu 2011 hafi sannað gildið sitt. Þá hafi aukið samstarf Sambands íslenskra sveitarfélaga og ríkisins í opinberum fjármálum einnig gefið góða raun. Lýsti ráðherra reyndar sérstakri ánægju með það og taldi ástæðu til að efla enn frekar þetta samstarf.

Hvað eflingu sveitarstjórnarstigsins varðar, þá benti ráðherra á að miðað við núverandi aðstæður megi ná enn betri árangri í skuldalækkun sveitarfélaga og velti hann upp þeim möguleika að lögbundið skuldahlutfall verði lækkað úr 150% af tekjum í 120%. Ef fram heldur sem horfir munu öll sveitarfélög komast yfir 120% þröskuldinn í lok þessa kjörtímabils.

Þegar vel árar þá á að nota tækifærið og lækka skuldir.

Þá endurtók ráðherra tillögur sínar um fækkun og stækkun sveitarfélaga með frjálsum sameiningum samfara stórauknum framlögum úr jöfnunarsjóði á fjögurra til átta ára tímabili. Að því liðnu tækju gildi lagaákvæði um lágmarksfjölda sveitarfélaga.

Sjónarmiðin í þessum efnum eru ólík og áherslur ólíkar en verkefnið er skýrt, að móta eina stefnu sem styður við eflingu sveitarstjórnarstigsins.

Enn fremur vék ráðherra  að því, að e.t.v. mætti víkka núverandi regluverk með stuðningi við vaxtarsvæði fyrir augum, til að styðja við þau svæði sem glími við öra fólksfjölgun. 

Varðandi tekjustofna sveitarfélaga, benti ráðherra á það samkomulag sem hafi náðst um að færa gistináttagjald, sem nemur 1,4 ma.kr. á ári, til sveitarfélaga. Hvernig því fjármagni verði skipt á milli sveitarfélaga sé umræða út af fyrir sig, en hafa verði í huga að kostnaður falli á fleiri sveitarfélög en þau, sem eru stærst í ferðaþjónustu. Margt geti því mælt með blandaðri leið í þeim efnum. 

Einnig er það að mati ráðherra réttlætismál að tekjur af mannvirkjum vegna orkuframleiðslu og -dreifingu geti runnið til sveitarfélaga og tilkynnti hann að starfshópur verði brátt skipaður til að ræða frekar þær hugmyndir sem liggi fyrir um það.