Nýjar reglur um fjárhagslega aðstoð Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga til að greiða fyrir sameiningu sveitarfélaga hafa verið birtar í samráðsgátt stjórnvalda til umsagnar.
Nýjar reglur um fjárhagslega aðstoð Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga til að greiða fyrir sameiningu sveitarfélaga hafa verið birtar í samráðsgátt stjórnvalda til umsagnar. Allir hafa tækifæri til að senda inn umsögn eða ábendingar en frestur til að skila umsögn er til og með 7. október 2019.
Ein af aðgerðum í drögum að tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi áætlun ríkisins í málefnum sveitarfélaga, sem nú er til umsagnar í samráðsgátt Stjórnarráðsins, felur í sér að fjárhagslegur stuðningur Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga við sameiningar sveitarfélaga verði aukinn. Þar er lagt til að reglum sjóðsins um stuðning þar að lútandi verði breytt svo ná megi settu markmiði. Jafnframt er lagt til að sjóðnum verði veittar heimildir í lögum um tekjustofna sveitarfélaga til að leggja árlega til hliðar fjármuni til að mæta kostnaði vegna slíks fjárhagslegs stuðnings, sem myndi greiðast út til sveitarfélaga í áföngum í kjölfar sameiningar.
Helstu breytingarnar sem lagðar eru til á gildandi reglum varða fyrirkomulag útreiknings á skuldajöfnunarframlagi sem og framlags vegna endurskipulagningar á stjórnsýslu í kjölfar sameiningar. Hvað skuldajöfnunarframlag varðar mun skuldaviðmið sveitarstjórnarstjórnarlaga verða lagt til grundvallar útreiknings, sbr. reglugerð nr. 502/2012 um fjárhagsleg viðmið og eftirlit með fjármálum sveitarfélaga. Þá verður bætt við sérstöku byggðaframlagi, en með því er komið til móts við þau sveitarfélög þar sem íbúaþróun hefur verið undir landsmeðaltali.
Allt að 15 milljarðar gætu farið í þennan stuðning á næstu fimmtán árum allt eftir því hvort sveitarfélög hyggjast nýta sér þennan stuðning. Nýmæli er að einstök sveitarfélög geta séð fyrirfram hvað félli í þeirra hlut samkvæmt reglum óháð því hvaða sveitarfélagi það sameinast.