Ný stefna í íþróttamálum kynnt

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, kynnti nýja stefnu í íþróttamálum í gær. Stefnan var unnin í samstarfi mennta- og menningarmálaráðuneytisins og íþróttanefndar ríkisins. Virk þátttaka og aðgengi allra að íþróttastarfi áframhaldandi leiðarstef í íþróttastefnu stjórnvalda.

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, kynnti nýja stefnu í íþróttamálum í gær. Stefnan var unnin í samstarfi mennta- og menningarmálaráðuneytisins og íþróttanefndar ríkisins og er virk þátttaka og aðgengi allra að íþróttastarfi áframhaldandi leiðarstef í íþróttastefnu stjórnvalda.

Af nýjum áherslum í stefnumörkuninni má nefna þátttöku ungmenna með annað móðurmál en íslensku og nánara samstarf en nú er innan íþróttahreyfingarinnar.

Nýja íþróttastefnan endurspeglar, að sögn ráðherra, þann trausta grunn sem íþróttastarf byggir á og skilgreinir þau forgangsverkefni sem vilji standi til að vinna að á næstu árum; að tryggja gott aðgengi fyrir iðkendur óháð uppruna þeirra og aðstæðum, að öryggi iðkenda og starfsfólks sé tryggt og að fagleg umgjörð íþróttastarfs í landinu verði styrkt.

Að kynningu ráðherra lokinni þakkaði Karl Björnsson, framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga, íþróttanefnd vel unnin störf. Stefnumörkunin undirstriki vel það mikilvæga hlutverk sem sveitarfélögin gegni fyrir íþróttastarf í landinu. Sérstök áhersla hefi verið lögð á íþróttir barna og ungmenna í takti við breyttar þarfir og áherslur í samfélaginu og sé það vel.

Við Íslendingar höfum staðið okkur vel við uppbyggingu íþróttamála og hlúð vel að æskunni. Því viljum við halda áfram og ljóst er að sveitarfélögin munu gegna þar lykilhlutverki.

Auk íþróttakennslu í skólum taka sveitarfélögin virkan þátt í rekstri íþróttastarfs utan skóla. Sagði Karl að heildstæð stefna sem tekur á íþróttaiðkun landsmanna á öllum stigum starfsins afar gagnlega, ekki hvað síst sveitarfélögum. Með því móti væri markaður sameiginlegur rammi utan um íþróttamálin sem sveitarfélögin geti haft til hliðsjónar við stefnumörkun sína og áætlanagerð.

Jafnframt minnti Karl á mikilvægi þess fyrir málaflokkinn að ríkisvaldið skerði ekki lögbundna tekjustofna sveitarfélaga. Ríkið verði að sýna því skilning að íþróttastarfsemi krefjist umtalsverðra útgjalda ásamt öðrum samfélagslega mikilvægum verkefnum sem sveitarfélögin sinna.

Jóhanna M. Hjartardóttir, menningar- og frístundafulltrúi Hveragerðisbæjar, var fulltrúi sveitarfélaganna í íþróttanefnd. Tengiliður af hálfu Sambands íslenskra sveitarfélaga var Anna Guðrún Björnsdóttir, sviðsstjóri.

Í stefnunni er meðal annars fjallað um skipulag og starfsemi íþróttahreyfingarinnar og þær breytingar sem orðið hafa á íslensku samfélagi á undanförnum árum. Fram kemur að mikilvægt sé að hlutverk og skipulag starfseininga í íþróttastarfi sé metið reglulega og að endurskoða megi verkefni, fjölda og skipulag íþróttahéraða landsins. Þá sé brýnt að auka samvinnu Íþrótta og Ólympíusambands Íslands og Ungmennafélags Íslands til að einfalda, styrkja og samræma verkefni þeirra.

Stefnan sem nú var kynnt byggir á endurskoðun fyrri stefnu sem í gildi var frá 2011-2015. Hafði íþróttanefnd samráð við hagsmunaaðila, auk þess sem stefnudrög voru sett á samráðsgátt stjórnarráðsins í vetur. Nýja íþróttastefnan gildir árin 2019-2030. Fyrirhugað er að stefnan verði endurmetin árið 2024.

Auk Karls tók Lárus Blöndal, formaður íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, til máls að kynningu ráðherra lokinni. Lárus gerði einnig góðan róm að nýju íþróttastefnunni. Þá minnti hann á 30 ára afmæli kvennahlaups ÍSÍ nú í júní næstkomandi og afhenti ráðherranum bleikan hlaupabol af því tilefni merktan afmælishlaupinu.