Ný skýrsla frá Kjaratölfræðinefnd

Föstudaginn 30. apríl 2021, kl. 10.00 -10:40, verður kynnt vorskýrsla Kjaratölfræðinefndar, samstarfsvettvangs um gerð og hagnýtingu tölfræðigagna um laun og efnahag.

Í skýrslunni er fjallað um kjarasamningalotuna sem hófst árið 2019 og stendur enn, þróun efnahagsmála og launa.

Kynningin verður í formi fjarfundar sem streymt verður í gegnum heimasíðu Kjaratölfræðinefndar. Edda Rós Karlsdóttir, formaður nefndarinnar, kynnir skýrsluna og gerir grein fyrir helstu atriðum hennar og niðurstöðum. Þá mun Margrét K. Indriðadóttir frá Hagstofu Íslands fjalla um áhrif vinnutímastyttingar á laun. Meðal nýjunga í skýrslunni er samanburður á launaþróun karla og kvenna, og á launaþróun innflytjenda og annarra. Tekið verður við fyrirspurnum á ktn@ktn.is meðan á fundinum stendur. Fundarstjórn verður í höndum Aðalsteins Leifssonar ríkissáttasemjara. 

Kjaratölfræði - vorskýrsla 2021

Í nefndinni sitja fulltrúar heildarsamtaka á vinnumarkaði, ríkis og sveitarfélaga, auk fulltrúa forsætisráðuneytis, félagsmálaráðuneytis, og Hagstofu Íslands. Vorskýrslan er önnur skýrsla nefndarinnar, en gert er ráð fyrir að framvegis komi út tvær á ári – vor og haust.

Skýrslan og tölfræðigögn eru aðgengileg hér að ofan og á vef Kjaratölfræðinefndar www.ktn.is. Það er von nefndarinnar að sá grunnur upplýsinga og tölfræðigagna sem settur er fram í skýrslunni nýtist haghöfum vel.