Niðurstöður könnunar um mönnunarviðmið og innritunaraldur í leikskólum

Um miðjan janúar 2022 var send út könnun á öll sveitarfélög sem reka leikskóla. Spurt var hvaða viðmið þau nota þegar lagt er mat á mönnunarþörf í leikskóla; barngildi, fermetrafjöldi eða annað. Einnig var endurtekin að hluta könnun frá 2019 þar sem spurt var um innritunaraldur leikskólabarna.

Helstu niðurstöður könnunar eru þessar:

  • Langflest sveitarfélög styðjast við barngildi þegar mönnunarþörf í leikskóla er áætluð, en misjafnt er hve mikið vægi þau hafa þar sem allnokkur líta til fleiri þátta.
  • Fram kemur að langflest sveitarfélögin eru mjög trú gömlu barngildunum sem var að finna í brottfallinni reglugerð um starfsumhverfi leikskóla. Helstu frávik er að finna í barngildum elstu barna þar sem meirihluti sveitarfélaga miðar við lægra barngildi en áður sem leiðir af sér að færri hendur þarf til að sinna þeim. Á móti eru nokkur sveitarfélög farin að miða við aðeins hærri barngildi vegna 1 árs og 4 ára barna, sem leiðir af sér aukna mönnunarþörf vegna þeirra aldurshópa.
  • Öll sveitarfélögin sem þátt tóku í könnuninni hafa sett sér viðmið um innritunaraldur, utan eitt þeirra sem er með slíka stefnu í mótun.
  • Fram kemur að 33 sveitarfélög hafa sett sér stefnu eða viðmið um að innrita börn við 12 mánaða aldur eða yngri. Þar býr þriðjungur landsmanna. Fjögur sveitarélög setja sér það viðmið að innritunaraldur sé um 18 mánaða en þar býr tæplega helmingur landsmanna. Munar þar talsverðu um að Reykjavíkurborg er í þeim hópi.
  • Svör sveitarfélaga vegna innritunaraldurs barna í reynd sýna hve mikil dreifingin er. Þó má sjá að flest eru þau á aldursbilinu 19-24 mánaða eða ríflega þriðjungur þeirra. Rúmlega fjórðungur innritast á aldrinum 13-18 mánaða sem er sama hlutfall og var árið 2018 þegar fyrri könnun var gerð.

Nánar má lesa um niðurstöður könnunar hér.