Niðurstöður liggja nú fyrir um ársreikninga 70 af 72 sveitarfélögum landsins fyrir árið 2019. Í þessum sveitarfélögum búa yfir 99% landsmanna.
Reikningum sveitarfélaga er skipað í tvo hluta. Undir A-hluta starfsemi sveitarfélaga falla verkefni sem að mestu eru fjármögnuð af skatttekjum. Þar má nefna verkefni eins og fræðslumál, félagsþjónustu, æskulýðs- og íþróttamál, umhverfis- og skipulagsmál.
Starfsemi sveitarfélaga sem fellur undir B-hluta eru fyrirtæki og stofnanir sem eru að hálfu eða öllu leyti í eigu sveitarfélaga, reknar sem sjálfstæðar rekstrareiningar og að mestu fyrir tekjur af veittri þjónustu. Ársreikningar sveitarfélaga sýna annars vegar rekstur, efnahag og sjóðstreymi samstæðu A- og B-hluta og hins vegar A-hlutans.
Í samandregnum niðurstöður má m.a. sjá að afkoma A-hluta sveitarfélaga árið 2019 var aðeins lakari en árið 2018. Rekstrarafgangur nam 14,5 ma. kr. eða 4,1% af tekjum, samanborið við 4,5% árið á undan og að tekjur A hlutans hækkuðu um 5,5% og gjöld þó nokkuð meira eða um 7,4%.
Útsvarstekjur sveitarfélaganna hækkuðu að meðaltali um 5,9% og laun og launatengd gjöld hækkuðu um 8,6%. Þá jukust skuldir og skuldbindingar A-hluta um 3,9%, en lækkuðu sem hlutfall af tekjum úr 106% í 104%.
Þetta og margt fleira má lesa í fréttabréfi hag- og upplýsingasviðs sambandsins um ársreikninga sveitarfélaga 2019 sem nú er komið út.