Neikvæð áhrif Covid-19 á landsframleiðslu í Evrópu

Í úttekt sem hugveitan Bruegel birti nýverið má sjá að Ísland er langt frá því að vera eitt á báti þegar kemur að áhrifum Covid-19. Þar er spáð 4-11% samdrætti landsframleiðslu meðal ríkja ESB.

Efnahagsleg áhrif Covid-19 eru mikið í umræðunni þessa dagana og á Fjármálaráðstefnu sveitarfélaganna kom fram að landsframleiðslan í ár yrði 120 milljörðum minni en á árinu 2019. Þá kom fram í erindi Sigurðar Á. Snævarr, sviðsstjóra hag-og upplýsingasviðs Sambands íslenskra sveitarfélaga, að ekki yrði hægt að „vaxa upp úr vandanum“ því sá vöxtur sem spáð væri næstu árin dygði ekki til að stoppa í gatið sem 7,6% samdráttur landsframleiðslu í ár skilur eftir sig.

En hver er staðan hér á landi í samanburði við önnur ríki Evrópu?

Í úttekt sem hugveitan Bruegel birti nýverið má sjá að Ísland er langt frá því að vera eitt á báti þegar kemur að áhrifum Covid-19. Þar er spáð 4-11% samdrætti landsframleiðslu meðal ríkja ESB. Því er ljóst að Covid-19 hefur neikvæð áhrif á landsframleiðslu allra ríkja ESB, en mismikið þó. Á meðan ríki á borð við Ítalíu, Spán, Króatíu og Frakkland horfa upp á 10-11% samdrátt þá vegnar ríkjum á borð við Pólland, Danmörku og Svíþjóð mun betur með 4-5% samdrátt.

Því virðist sem efnahagslegra áhrifa Covid-19 gæti frekar í sunnanverði álfunni. En hverju sætir?

Það er einkum tvennt sem ríkin sem verst verða úti eiga sameiginlegt. Í fyrsta lagi var gripið til harkalegra aðgerða til þess að stemma stigu við útbreiðslu Covid-19 veirunnar. Í öðru lagi er ferðamannaiðnaðurinn stór hluti af hagkerfi þessara landa. Þá skiptir einnig máli hversu vel stjórnkerfi þessara landa eru í stakk búin að takast á við faraldur af þessu tagi.

Ísland á það sammerkt með þessum löndum að ferðamannaiðnaðurinn er stór hluti af hagkerfinu. Því hafa Covid-19 aðgerðir, bæði hér á landi og í öðrum löndum, gríðarleg áhrif á landsframleiðslu Íslands.

Úttekt Bruegel