Meðhöndlun úrgangs í brennidepli

Fyrirséð er að úrgangsmál verða afar fyrirferðarmikil í umræðum á sveitarstjórnarstigi næstu vikurnar. Fjölsóttur fjarfundur um brennslu úrgangs, sem haldinn var 11. janúar, í samstarfi Sambands íslenskra sveitarfélaga, samráðsvettvangs sorpsamlaga á SV-horni landsins og umhverfis- og auðlindaráðuneytisins bendir til brennandi áhuga á þessum málaflokki. Margar knýjandi ákvarðanir bíða sveitarstjórna og ljóst er að þörf fyrir breitt samstarf er mikil.

Á fundinum 11. janúar var kynnt skýrsla um brennslu úrgangs sem Resource International vann fyrir umhverfis- og auðlindaráðuneytið. Skýrslan var kynnt sama dag á heimasíðu ráðuneytisins. Á fundinum voru haldin afar fróðleg erindi um málefnið en um 170 þátttakendur voru á fundinum. Upptökur frá fundinum má nálgast hér.

Frá umræðum á fundinum.

Fyrirséð er að ákveðinn hluti úrgangs verði alltaf óendurvinnanlegur og því þarf að leita lausna til meðhöndlunar á honum. Hluta óendurvinnanlegs úrgangs er t.d. hægt að brenna til orkunýtingar. Áhersla verkefnisins er að greina þörf fyrir sorpbrennslustöðvar og þannig er aðeins fjallað um brennanlegan úrgang sem var að meðaltali 23% af öllum úrgangi árin 2017 og 2018.

Settar voru upp þrjár sviðsmyndir um þróun endurvinnslu og endurnýtingu á Íslandi til þess að sjá hversu stórt hlutfall úrgangs yrði óendurvinnanlegt miðað við forsendur hverrar sviðsmyndar. Sviðsmyndirnar og spár þeirra miða við meðaltal úrgangsmyndunar áranna 2017 og 2018. Í sviðsmyndunum er notast við heitið áætlaður fargaður brennanlegur úrgangur, sem er sá úrgangur sem ratar ekki í endurvinnslu en nýtist við orkuframleiðslu við sorpbrennslu. Þeim sem áhuga hafa á að kynna sér málið nánar er bent á skýrsluna ásamt erindi Karls Eðvaldssonar framkvæmdastjóra RI á fundinum 11. janúar.

Þann 12. janúar voru birtar í samráðsgátt stjórnvalda drög að stefnu í úrgangsmálum undir heitinu Í átt að hringrásarhagkerfi: Stefna umhverfis- og auðlindaráðherra í úrgangsmálum. Kynningarfundir verða haldnir um málið á næstunni og mun Samband íslenskra sveitarfélaga kappkosta að leita eftir afstöðu sveitarfélaga til málsins, ásamt því að verkefnisstjórn um hagsmunagæslu sveitarfélaga í úrgangsmálum mun fjalla ítarlega um stefnudrögin.