Meðhöndlun úrgangs á neyðarstigi

Í gildi er áætlun Umhverfisstofnunar um meðhöndlun úrgangs á neyðarstigi. Þann 5. október sl. gaf stofnunin út tilmæli sem send voru öllum sveitarfélögum, heilbrigðiseftirlitum og rekstraraðilum sem koma að meðhöndlun úrgangs um að unnið sé eftir neðangreindum verklagsreglum vegna smithættu af úrgangi og meðhöndlun úrgangs.

Tilmælin eiga við um starfsmenn sem vinna við meðhöndlun úrgangs. Ekki verður að sinni farið í sértækar ráðstafanir varðandi flokkun endurvinnsluefna líkt og gert var í vor þegar endurvinnsluefni var geymt í tvær vikur eða urðað. Hinsvegar er nú sem fyrr afar mikilvægt að viðhafa góðar verklagsreglur vegna smithættu af úrgangi og meðhöndlun úrgangs til verndar því starfsfólki sem sinnir þessum mikilvægu störfum.

Því beinir Umhverfisstofnun því til ofangreindra aðila að tryggt sé að:

  • Starfsfólk hafi aðgang að viðeigandi hlífðarbúnaði, aðstöðu til handþvotta og aðgang að sótthreinsispritti.
  • Notaðar séu viðeigandi persónuhlífar við meðhöndlun úrgangs, svo sem:
    • einnota hanska þar sem þörf er á að snerta úrgang eða endurvinnsluefni
    • grímur og andlitshlífar þar sem möguleiki er á loftbornu smiti við meðhöndlun úrgangs
    • grímur þar sem ekki er unnt að tryggja 1 m fjarlægð milli starfsfólks
  • Skipuleggja starfsemi þannig að tryggt sé að hún haldist órofin.
  • Sótthreinsa sameiginlega snertifleti reglulega.
  • Allur hlífðarbúnaður, s.s. einnota hanskar og grímur fer eftir sem áður í blandaðan úrgang.

Almennar upplýsingar til sveitarfélaga vegna COVID-19