Launað starfsnám kennaranema

Menntamálaráðherra, Lilja Alfreðsdóttir, kynnti 5. mars sl. aðgerðir til næstu fimm ára sem ætlað er að efla nýliðun í kennarastétt, stuðla að fjölgun nemenda í kennaranámi og sporna gegn brottfalli kennara úr starfi. Launað starfsnám á 5. og síðasta ári kennaranáms er á meðal þeirra aðgerða sem boðaðar hafa verið og er því einkum ætlað að efla tengsl kennaramenntunar við starfsvettvang og auka færni nýliða til að takast á við áskoranir kennarastarfsins.

Menntamálaráðherra, Lilja Alfreðsdóttir, kynnti 5. mars sl. aðgerðir til næstu fimm ára sem ætlað er að efla nýliðun í kennarastétt, stuðla að fjölgun nemenda í kennaranámi og sporna gegn brottfalli kennara úr starfi. Launað starfsnám á 5. og síðasta ári kennaranáms er á meðal þeirra aðgerða sem boðaðar hafa verið og er því einkum ætlað að efla tengsl kennaramenntunar við starfsvettvang og auka færni nýliða til að takast á við áskoranir kennarastarfsins.

Sambandið gekkst nýlega fyrir upplýsingafundi í beinu streymi um launaða starfsnámið og framkvæmd þess. Viðbúið er að spurn eftir því verði veruleg, nú þegar á næsta skólaári, en vettvangsnám hefur fram að þessu verið ólaunað og mun styttra.

Við móttöku kennaranema á vettvang skóla er lögð áhersla á sameiginlega ábyrgð starfsfólks og mikilvægi faglegrar innleiðingar þeirra í starf. Skipuð hefur verið sérstök ráðgjafanefnd sem er ætlað að fylgja eftir samkomulagi um launað starfsnám kennaranema á lokaári og hefur verið boðað til fyrsta fundar nú á föstudag. Afar þýðingarmikið er fyrir framgang verkefnisins að því verði fylgt eftir með skipulegum og skilvirkum hætti. Nýjar aðsóknartölur frá skráningum í kennaranám á komandi hausti sýna aukinn fjölda kennaranema svo ekki er ástæða til annars en bjartsýni um framhaldið.

Um framsögur á upplýsingafundinum sáu Svandís Ingimundardóttir, skólamálafulltrúi, sem fjallaði um umgjörð og framkvæmd starfsnámsársins, Bjarni Ómar Haraldsson, sérfræðingur á kjarasviði, sem fjallaði um ákvæði í kjarasamningi vegna leiðsagnarkennara og Vigdís Ósk Häsler Sveinsdóttir, lögfræðingur hjá sambandinu , en hún fór í gegnum frumvarp til laga um menntun, hæfni og ráðningu kennara og lagði áherslu á mikilvægi þess að bráðabirgðaákvæði verði fellt inn í frumvarpið sem tryggir stöðu og réttindi nema í starfsnámi.

Að framsögum loknum tóku við fyrirspurnir. Fyrir svörum sátu, ásamt, framsögumönnum, Þorsteinn Sæberg, formaður Skólastjórafélags Íslands og Sigurður Sigurjónsson, formaður Félags stjórnenda leikskóla. Fyrirspurnum var miðlað á slido.com, veflausn sem hefur verið að ryðja sér hratt til rúms á fundum á vegum sambandsins.

Til upprifjunar má nefna að aðgerðirnar sem menntamálaráðherra kynnti þann 5. mars sl. eru liður í stórsókn stjórnvalda í menntamálum. Helstu aðgerðir fela í stuttu máli í sér launað starfsnám á lokaári kennaranámsins, námsstyrk til að ljúka meistararitgerð og námsstyrki starfandi kennurum til handa vegna náms í starfstengdri leiðsögn. Á heildina litið miða umræddar aðgerðir að því að gera náms- og starfsumhverfi nemenda og nýliða þannig úr garði, að þeir ljúki námi á tilsettum tíma, ráði sig til starfa að því loknu og ílengist í starfi á vettvangi leik- og grunnskóla.

Aðgerðirnar byggja sem kunnugt er, á tillögum sem sambandið hafði forgöngu um að vinna með Háskólanum á Akureyri og Menntavísindasviði Háskóla Íslands og kynntar voru í ársbyrjun 2018. Tillögur menntamálaráðherra voru unnar í víðtækara samstarfi sem Kennarasamband Íslands átti meðal annarra aðild að og fela í sér umtalsverðar breytingar á kennaranáminu