Viðurkenna verður framlegðarþörf sveitarfélaga

Forsenda þess að sveitarfélög geti sinnt nauðsynlegri uppbyggingu og þróun vegna þeirra verkefna sem þau taka að sér, er að framlegðarþörf þeirra sé viðurkennd af hálfu ríkisins. Karl Björnsson, framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga, fjallaði um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga í erindi sínu á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga í dag og þróun helstu stærða í þeim efnum. 

Forsenda þess að sveitarfélög geti sinnt nauðsynlegri uppbyggingu og þróun vegna þeirra verkefna sem þau taka að sér, er að framlegðarþörf þeirra sé viðurkennd af hálfu ríkisins. Karl Björnsson, framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga, fjallaði um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga í erindi sínu á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga í dag og þróun helstu stærða í þeim efnum.  

Þróunin á verkaskiptingu þessara tveggja stjórnsýslustiga hefur á undanförnum áratugum einkennst af auknum vilja til að færa verkefni frá ríki til sveitarfélaga og hafa umfangsmestu tilfærslurnar til þessa verið vegna grunnskólans árið 1996 og flutningur á þjónustu við fatlað fólk á árinu 2011. 

Reynsla sveitarfélaga hefur fram að þessu verið er sú, að ríkið leggur megináherslu á að tekjur komi á móti kostnaði, þ.e. að verkefni fari yfir á pari, eins og sagt er. Gallinn á þessu fyrirkomulagi er sá, að litið er fram hjá framlegð sveitarfélaga og um leið getu þeirra til að standa undir fjárfestingum og þróun umræddra verkefna. Mikilvægt er því að mati Karls að framlegðarþörf sveitarfélaga verði viðurkennd af hálfu ríkisins.

Um reynslu sveitarfélaga af verkefnaflutningi nefndi Karl nokkur dæmi, þar á meðal af grunnskólanum og rekstrarþróun hans, en grunnskólakerfið var talið fullfjármagnað um síðustu aldamót, um það leyti sem sveitarfélög tóku við rekstrinum. 

Kom m.a. fram í máli Karls, að nú þegar 20 ár eru liðin frá verkefnafærslunni, hafi kennurum og skólastjórnendum verið fjölgað um 44% og öðrum starfsmönnum um 88%. Á sama tíma hefur nemendum fjölgað um 7%. Árið 2017 jafngilti þessi tekjutilflutningur í útsvari um 41,3 ma.kr. Launakostnaður kennara og skólastjórnenda 2017 nam hins vegar um 45,2 ma.kr. Mismunurinn er um 3,9 ma.kr. 

Um yfirtöku á málefnum fatlaðs fólks sagði Karl m.a., að ekki hafi enn tekist að fá tiltekna framlegðarþörf viðurkennda vegna þeirra verkefna og ljóst sé að NPA-þjónusta kalli á aukið fé frá ríkinu. 

 Áætlaður heildarhalli á málaflokknum er talinn hafa numið um 1,2 ma.kr. árið 2016 – langstærsti hlutinn hjá Reykjavíkurborg.  

Varðandi næstu verkefnafærslur nefndi Karl að mikilvægast af öllu væri að vinna bug á gráum svæðum í opinberri þjónustu með skýrri verkaskiptingu og fullri fjármögnun verkefna. Umræða væri jafnframt um færslu á rekstri framhaldsskóla, heilsugæslu og öldrunarþjónustu. Nokkur áhugi væri á því síðasttalda hjá sveitarfélögunum, en ræða þurfi þá vanfjármögnun sem er til staðar í þeim málaflokki. Þá væri áhugi sveitarfélaga sem stendur lítill á því að yfirtaka rekstur á heilsugæslunni og framhaldsskólum. Kallað væri þó eftir reynsluverkefnum varðandi rekstur framhaldsskóla.

Ríkið þarf að fullfjármagna öldrunarþjónustuna og móta  þarf stefnu um uppbyggingu með mælanlegum markmiðum sem eru kostnaðarmetanleg, áður en hægt verður að flytja ábyrgðina frá ríki til sveitarfélaga!

Þá benti Karl á að jöfnunarkerfi á Íslandi sé eitt það umfangsminnsta í OECD-ríkjunum. Á móti kemur að skatttekjur sveitarfélaga byggja á sjálfstæðari tekjuöflun en viðgengst í þeim ríkjum. Hætt sé við að sjálfstæði sveitarfélaga minnki eftir því sem tekjustreymi til þeirra verði miðlægra.