Hvað er byggt í hverju sveitarfélagi?

Breyting á reglugerð um húsnæðisáætlanir sveitarfélaga kveður á um að húsnæðisáætlanir sveitarfélaga verði samanburðarhæfar. Með því móti er vonast til þess að stuðningur hins opinbera við uppbyggingu húsnæðis verði markvissari og í samræmi við þörf á hverjum tíma.

Er þetta í samræmi við markmið rammasamnings sem undirritaður var í sumar á milli ríkis og sveitarfélaga um að auka framboð á íbúðum fram til ársins 2032. Samningurinn markaði tímamót sem fyrsti samningurinn þar sem ríki og sveitarfélög sammælast um stefnu og markvissar aðgerðir til að tryggja uppbyggingu íbúða í samræmi við þörf ólíkra hópa, þar á meðal þeirra tekju- og eignaminni.

Meginefni reglugerðarinnar eru:

  • Húsnæðisáætlanir sveitarfélaga skulu framvegis unnar samhliða fjárhagsáætlun
  • Húsnæðisáætlunum skal skila til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar 20. janúar ár hvert í stað 1. mars frá og með árinu 2024
  • Húsnæðisáætlanir verða á stafrænu formi og því samanburðarhæfar á milli sveitarfélaga
  • Húsnæðisáætlanir skulu gerðar til tíu ára í senn og uppfærðar einu sinni á ári
  • Sveitarstjórn skal samþykkja húsnæðisáætlun sveitarfélags