Rammasamningur um húsnæðisuppbyggingu

Í dag, 12. júlí, var undirritaður rammasamningur um húsnæðisáætlun til tíu ára. Aðilar að samningnum eru innviðaráðuneyti, Húsnæðis- og mannvirkjastofnun og Samband íslenskra sveitarfélaga.

Í dag, 12. júlí, var undirritaður rammasamningur um húsnæðisáætlun til tíu ára. Aðilar að samningnum eru innviðaráðuneyti, Húsnæðis- og mannvirkjastofnun og Samband íslenskra sveitarfélaga. Tilgangur rammasamningsins er að auka framboð nýrra íbúða til að mæta fyrirsjáanlegri íbúðaþörf ólíkra hópa samfélagsins til skemmri og lengri tíma og stuðla að auknum stöðugleika og jafnvægi á húsnæðismarkaði á næstu tíu árum.

Í rammasamningnum kemur fram áætlun á landsvísu um byggingu 4.000 íbúða árlega á næstu fimm árum og 3.500 íbúða árlega næstu fimm ár eftir það til að mæta áætlaðri þörf fyrir íbúðarhúsnæði. Innviðaráðherra kynnti efni samkomulagsins fyrir fjölmiðlum.

Um er að ræða fyrsta samning milli ríkis og sveitarfélaga af þessum toga. Samningnum fylgir viðauki með tuttugu og fjórum tímasettum aðgerðum en gert er ráð fyrir að sú aðgerðaáætlun verði uppfærð árlega. Aðgerðaáætlun felur m.a. í sér útfærslu á niðurstöðum starfshóps um aðgerðir og umbætur á húsnæðismarkaði, sem kynntar voru í maí sl., og skipaður var fulltrúum ríkis, sveitarfélaga og aðila vinnumarkaðarins.

Nánar um efni samkomulagsins vísast til fréttar á heimasíðu innviðaráðuneytisins.

Nú þegar samningurinn liggur fyrir er ætlunin að bjóða öllum sveitarfélögum til viðræðna um samning um húsnæðisuppbyggingu innan marka hvers sveitarfélags en einnig kemur til greina að sveitarfélög sem t.d. mynda sameiginlegt atvinnusvæði, sameinist í samning. Fyrsta skref í þeim viðræðum er að HMS og viðkomandi sveitarfélag framkvæma stöðumat þar sem farið er yfir stöðu á uppbyggingu íbúða, þarfagreiningu, stöðu lóða og annarra þátta sem máli skipta. Á grundvelli slíks stöðumats, uppfærðrar húsnæðisáætlunar og þeirra markmiða sem fram koma í rammasamningnum semja svo einstök sveitarfélög við ríkið um uppbyggingu í takt við þörf.

Sveitarfélög munu á næstu dögum frá formlegt erindi frá HMS með frekari upplýsingum.