Helstu kröfur sambandsins í umsögn um fjármálaáætlun og fjárlagafrumvarp

Samband íslenskra sveitarfélaga hefur sent fjárlaganefnd umsögn um fjármálaáætlun 2021-2025 og fjárlagafrumvarp 2021. Í umsögninni er komið víða við.

Helstu kröfur sem sambandið gerir til fjárlaganefndar eru þessar:

Ríkið standi með sveitarfélögum

 • Gerð er krafa um að fjárlaganefnd finni leiðir fyrir aðkomu ríkissjóðs  að lánsfjármögnun í þágu sveitarfélaga.
 • Einnig er gerð krafa um að þær stuðningsaðgerðir sem fram koma í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar verði framlengdar til næsta árs og að þess sjáist stað í fjármálaáætlun og fjárlögum ásamt því að hugað verði að frekari stuðningi við sveitarfélögin, t.d. enn frekari endurgreiðslu útgjalda til fjárhagsaðstoðar.

Skattar

 • Þóknun vegna innheimtu staðgreiðslu útsvars verði lækkuð til samræmis við raunkostnað við innheimtuna.
 • Sveitarfélögum verði tryggð aðkoma að upplýsingum um útsvarsálagningu.
 • Endurgreiðsluheimild VSK fyrir sveitarfélög verði útvíkkuð til að ná yfir öll mannvirki í eigu sveitarfélaga sem og til jarðvegsvinnu.

Jöfnunarsjóður

 • Sambandið gerir kröfu um að ríkið greiði til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga vegna sameininga sveitarfélaga á hverju ári fjármálaáætlunar.

Almenningssamgöngur

 • Sambandið gerir kröfu um að komið verði til móts við Strætó bs. og tekjufall fyrirtækisins verði bætt að fullu.

Innviðir og umhverfi

 • Alþingi sýni aðhald gagnvart því að ríkisvaldið fari fram með íþyngjandi kröfur á hendur sveitarfélögum þegar kemur að framkvæmd brýnna innviðaverkefna á borð við fráveituframkvæmdir.
 • Sambandið leggur áherslu á að sóknaráætlanir landshluta og byggðaáætlun eru góður farvegur fyrir fjárveitingar til umhverfismála.

Menntun

 • Lögð er áhersla á að nægilegar fjárveitingar fylgi verkefnum eins og Þjóðarátaki um læsi, ytra mat leik- og grunnskóla, starfsþróun kennara og skólastjórnenda og aukin gæði og stafræna þróun námsgagna..
 • Lagt er til að fjárheimild til tónlistarfræðslu hækki í samræmi við ábendingar samráðsnefndar.

Hjúkrunarheimili

 • Hækka þarf daggjöld hjúkrunarheimila án tafar um a.m.k. 2,5 ma.kr. Bæta þarf hjúkrunarheimilum þann kostnað og tekjutap sem þau hafa orðið fyrir vegna Covid-19.

Málefni fatlaðs fólks

 • Tryggja þarf aukin framlög á næstu árum til málefna fatlaðs fólks svo ekki þurfi að koma til þess að þjónusta við fatlað fólk verði skert.
 • Ganga þarf frá formlegu samkomulagi um ábyrgðarskiptingu og fjármögnun út innleiðingartíma NPA þjónustu, þar sem jafnframt verði lagðar línur um framtíðarfyrirkomulag frá og með árinu 2023.

Fjölskyldumál

 • Tryggja þarf fjármögnun í fjárlögum og fjármálaáætlun til innleiðingar fyrirhugaðra laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna.
 • Auka þarf gagnsæi í fjármögnun móttöku flóttafólks og ganga úr skugga um að sveitarfélögin fái það fjármagn sem þeim ber til að veita þá þjónustu sem þau inna af hendi í þágu flóttamanna og hælisleitenda.
 • Krafist er að ríkið komi með myndarlegum hætti að fjármögnun fjárhagsaðstoðar og að bótatímabil atvinnuleysisbóta verði lengt.