Góð rekstrarafkoma og miklar fjárfestingar

Samantekt hag- og upplýsingasviðs úr ársreikningum 10 stærstu sveitarfélaga landsins leiðir í ljós, að afkoma var á síðasta ári góð og fjárfestingar miklar. Fjárfestingar jukust í A-hluta um 36% frá árinu 2017 og rekstrarafgangur svaraði til 4,2% af heildartekjum, sem er jafnframt aðeins betri árangur en árið áður. Veltufé frá rekstri nam 11,2% af heildartekjum árið 2018, samanborið við 10,2% árið áður, 11,7% árið 2016 og 12,7% árið 2015.

Samantekt hag- og upplýsingasviðs úr ársreikningum 10 stærstu sveitarfélaga landsins leiðir í ljós, að afkoma var á síðasta ári góð og fjárfestingar miklar. Fjárfestingar jukust í A-hluta um 36% frá árinu 2017 og rekstrarafgangur svaraði til 4,2% af heildartekjum, sem er jafnframt aðeins betri árangur en árið áður. Veltufé frá rekstri nam 11,2% af heildartekjum árið 2018, samanborið við 10,2% árið áður, 11,7% árið 2016 og 12,7% árið 2015.

Fjárfesting var umfram það sem reksturinn skilaði og var að hluta til fjármögnuð með lántökum. Þá luku flest sveitarfélög uppgjöri við Brú lífeyrissjóð með lántökum á árinu og hækkuðu skuldir því einnig um það sem þeim nemur. Í krónum talið jukust skuldir og skuldbindingar A-hluta um 8,4% og hækkuðu sem hlutfall af heildartekjum úr 109,6% í 112,4% á milli ára.

Þegar fyrirtækjum og stofnunum í meirihlutaeigu sveitarfélaga, B-hlutanum, er bætt við A-hlutann fæst samstæða sveitarfélaga. Rekstrarafgangur af samstæðu 10 stærstu sveitarfélaganna nam á síðasta ári 6,2% af heildartekjum, sem er talsvert lakari niðurstaða en árið áður þegar rekstrarafgangur var 11,5% af tekjum.

Þennan umsnúning má alfarið rekja til OR og þeirra sveiflna í afleiðum á álverði sem bókaðar eru í reikningum fyrirtækisins. Þessara áhrifa gætir ekki í veltufé þar sem tenging við álverð hefur ekki áhrif á fjárstreymi. Veltufé frá rekstri samstæðnanna nam 19% af heildartekjum árið 2018 en 17,5% árið áður. Hafa ber í huga að Orkuveita Reykjavíkur (OR) er langstærst allra B-hluta fyrirtækja og eru rekstrartekjur þess töluvert meiri en tekjur Kópavogsbæjar, svo að dæmi sé tekið.

Þá dró heldur úr fjárfestingum í B-hluta á árinu 2018 og munar þar ekki hvað síst um minni fjárfestingar hjá OR. Sökum aukinna fjárfestinga í A-hluta, aukast þó heildarfjárfestingar samstæðnanna á milli ára. Námu fjárfestingar samstæðnanna 18,5% af heildartekjum árið 2018 en 17,1% árið áður.

Tíu fjölmennustu sveitarfélög landsins eru Reykjavíkurborg, Kópavogsbær, Hafnarfjarðarkaupstaður, Akureyrarkaupstaður, Reykjanesbær, Garðabær, Mosfellsbær, Sveitarfélagið Árborg, Akraneskaupstaður og Fjarðabyggð. Í þessum sveitarfélögum búa um 80% landsmanna.

Í meðfylgjandi töflu eru tekin saman helstu atriði úr ársreikningum. Taflan sýnir samtölu þessara tíu sveitarfélaga og tölur ekki blásnar upp til heildar.

Ársreikningar allra sveitarfélaga munu liggja fyrir innan skamms á samræmdu formi og mun hag- og upplýsingasvið gera þeim skil í fréttabréfi síðar í næsta mánuði.

Úr ársreikningum 10 fjölmennustu sveitarfélaga landsins

  A-hluti   A- og B-hluti  
      Breyting, %       Breyting, %  
  2017 2018 2017-2018   2017 2018 2017-2018  
Skatttekjur 177,6 193,1 8,7%   176,8 192,2 8,7%  
Jöfnunarsjóður 23,0 24,2 5,3%   23,0 24,2 5,3%  
Aðrar tekjur 40,8 38,0 -6,9%   120,4 122,1 1,5% *
Heildartekjur 241,4 255,3 5,8%   320,4 339,0 5,8%  
                 
Laun og tengd gjöld 126,8 132,7 4,6%   147,2 153,1 4,1% **
Hækkun lífeyrisskuldbindinga 13,0 9,4 -27,6%   12,6 9,6 -23,8%  
Annar rekstrarkostnaður 78,3 87,1 11,3%   97,5 106,8 9,5%  
Rekstrarkostnaður 218,1 229,2 5,1%   257,3 269,5 4,8%  
Framlegð (EBITDA) 23,3 26,1 11,9%   63,1 69,5 10,2%  
Fjármunatekjur mínus -gjöld -3,8 -6,7 77,8%   -5,0 -27,3 442,3% ***
Rekstrarniðurstaða 9,6 10,8 12,5%   36,2 20,9 -42,2%  
                 
Skuldir og skuldbindingar 264,6 286,9 8,4%   501,2 545,2 8,8%  
Nettó skuldir og skuldbindingar 211,1 236,1 11,8%   417,9 454,4 8,8% ****
                 
Veltufé frá rekstri 24,3 28,5 17,4%   55,7 63,9 14,7%  
Handbært fé frá rekstri 14,3 23,9 66,8%   45,9 53,9 17,3%  
Fjárfest í varanlegum rekstrarfjármunum 26,4 36,0 36,3%   54,8 62,8 14,8%  
Hækkun á handbæru fé 1,6 3,4 118,3%   -4,2 14,4 -447,1%  
                 
Hlutföll af heildartekjum              
Framlegð (EBITDA) 9,7% 10,2%     19,7% 20,5%    
Rekstrarniðurstaða 4,0% 4,2%     11,3% 6,2%    
Veltufé frá rekstri 10,1% 11,2%     17,4% 18,8%    
Fjárfest í varanlegum rekstrarfjármunum 10,9% 14,1%     17,1% 18,5%    
Skuldir og skuldbindingar 109,6% 112,4%     156,4% 160,8%    
Nettó skuldir og skuldbindingar 87,4% 92,5%     130,4% 134,1%    
                 
* Lækkun annarra tekna A-hluta má rekja til minni tekna Reykjavíkurborgar af sölu byggingaréttar.
** Árið 2017 inntu sveitarfélög af hendi greiðslur til Brúar-lífeyrissjóðs starfsmanna sveitarfélaga til að jafna halla á A-deild sjóðsins. Þessar greiðslur voru færðar á launakostnað. Fyrir vikið er hækkun launa og tengdra launa frá árinu 2017 til 2018 lægri en ella.  
*** Hækkun fjármagnsgjalda A- og B-huta má rekja til OR, þar sem um verulega gjaldfærslu álafleiða var að ræða á árinu 2018 en tekjufærslu 2017.  
**** Að frádregnum  veltufjármunum.