Frestun á gildistöku breytinga á barnaverndarlögum

Samkvæmt lögum sem Alþingi samþykkti um mitt ár 2021 átti ný skipan barnaverndarmála hjá sveitarfélögum að taka gildi þann 28. maí 2022.

Við innleiðingu breytinganna kom fram skýr vilji hjá sveitarfélögunum til að fresta gildistöku þeirra enda er verkefnið bæði flókið og tímafrekt og hefur gengið hægar en vonir stóðu til. Kosningar til Alþingis, breytingar á skipan ráðuneyta með umfangsmiklum breytingar á málefnum barna í Stjórnarráðinu ásamt mikilli áherslu á innleiðingu nýrra laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna nr. 86/2021, með tilheyrandi breytingum á þeim stofnunum sem að verkefninu koma, hefur gert það að verkum að ekki hefur tekist að veita þann stuðning við innleiðinguna sem æskilegt hefði verið.   

Þá hefur heimsfaraldur Covid-19 haft áhrif á nær öll önnur verkefni bæði ríkis og sveitarfélaga ásamt því að sameiningar sveitarfélaga og komandi sveitarstjórnarkosningar gera það að verkum að erfitt er að vinna að svo umfangsmiklum breytingum á stjórnsýslu sveitarfélaga í barnaverndarmálum á þeim takmarkaða tíma sem ætlaður var. Þá kom einnig í ljós þegar umfang mála hjá umdæmisráðum barnaverndar var skoðað að líklega er skynsamlegast að það verði ekki nema 2-3 umdæmisráð á landinu öllu. Eðli málsins samkvæmt krefst það samvinnu fjölmargra sveitarfélaga um allt land sem kallar á lengri undirbúning og mikla samvinnu. Þá þarf ekki þarf að fjölyrða um mikilvægi þessa málaflokks né mikilvægi þess að stjórnsýsla barnaverndar í landinu gangi snurðulaust fyrir sig.

Í ljósi framangreinds óskaði Samband íslenskra sveitarfélaga eftir því við ráðuneytið að gildistökunni yrði frestað og að stofnaður yrði innleiðingarhópur til að styðja við breytingarnar. Ráðherra lagði í kjölfarið fram frumvarp um frestun og þann 29. apríl sl. samþykkti Alþingi að fresta gildistöku breytinganna til 1. janúar 2023. Innleiðingarhópurinn hefur þegar tekið til starfa og von er á afurðum frá honum á næstu vikum.