Ný skipan barnaverndarmála hjá sveitarfélögum

Þann 13. júní sl. samþykkti Alþingi breytingar á barnaverndarlögum sem fela í sér grundvallarbreytingar á uppbyggingu barnaverndar innan sveitarfélaga. Barnaverndarnefndir í núverandi mynd eru lagðar niður og meginábyrgð daglegra verkefna barnaverndar falin barnaverndarþjónustu.

Þá er komið á fót nýjum sjálfstæðum stjórnsýslunefndum, umdæmisráðum barnaverndar, sem fara með úrskurðarvald í ákveðnum barnaverndarmálum þar sem mest reynir á faglega þekkingu.  

Barnaverndarþjónusta sveitarfélaga 

Með nýrri skipan barnaverndar er horfið frá því að barnaverndarnefndir séu skipaðar með sama hætti og fastanefndir sveitarstjórnar, þ.e. í takti við pólitískar áherslur og skiptingu í meiri- og minnihluta, en áherslan færð á faglega meðferð barnaverndarmála hjá barnaverndarþjónustu sveitarfélaga. Áfram er þó gert ráð fyrir að sveitarstjórn fari með yfirstjórn barnaverndarþjónustu og er heimilt að fela hana fastanefnd.  

Hvorki sveitarstjórn né fastanefnd er heimilt að gefa barnaverndarþjónustu fyrirmæli um meðferð einstakra mála og er eingöngu heimilt að afla upplýsinga frá barnaverndarþjónustu sem eru nauðsynlegar til þess kjörnir fulltrúar geti sinnt stefnumörkunarhlutverki sínu. Sveitarstjórn setur samþykkt þar sem vald til fullnaðarafgreiðslu mála samkvæmt  lögunum er falið einum eða fleiri úr hópi starfsfólks barnaverndarþjónustu.  

Umdæmisráð barnaverndar 

Samkvæmt lögunum eru umdæmisráð barnaverndar nýjar stjórnsýslunefndir sem fara með úrskurðarvald í ákveðnum barnaverndarmálum á vettvangi sveitarfélaga. Að meginstefnu til eru umdæmisráðum barnaverndar falin þau verkefni sem barnaverndarnefndir fara með að gildandi lögum og hafa ekki heimildir til að framselja til starfsmanna. Umdæmisráðin eru skipuð til fimm ára, eru sjálfstæð í störfum sínum, standa utan við almenna stjórnsýslu sveitarfélaga og ráðsmenn taka ekki við fyrirmælum um meðferð einstakra mála. Umdæmisráð eru skipuð þremur ráðsmönnum sem hafa ákveðna fagþekkingu, þ.e. félagsráðgjafa, sálfræðingi og lögfræðingi, og skulu þeir hafa í það minnsta þriggja ára starfsreynslu í barnavernd. 

Skipan umdæmisráða felur í sér veigamikið nýmæli enda hefur löggjöf um sveitarstjórnarstigið fram til þessa ekki gert ráð fyrir skipun sjálfstæðra stjórnsýslunefnda. Samkvæmt skýringum í greinargerð er litið svo á að starfsemi umdæmisráða fari fram á sama stjórnsýslustigi og önnur stjórnsýsla sveitarfélaga og að umdæmisráð teljist því ekki æðri stjórnvöld gagnvart sveitarfélögunum þ.m.t. barnaverndarþjónustunni. Í greinargerð segir jafnframt að ákvæði sveitarstjórnarlaga um nefndir, ráð og stjórnir, starfsmenn sveitarfélaga og samvinnu þeirra gildi ekki um starfsemi umdæmisráða. Um þau gildi aftur á móti almennar reglur um starfsemi fjölskipaðra stjórnvalda, þ.m.t. stjórnsýslulög. 

Sex þúsund íbúa lágmark 

Miðað er við að í umdæmi hverrar barnaverndarþjónustu og umdæmisráðs barnaverndar skuli vera í það minnsta 6.000 íbúar. Eins og nánar er rakið í greinargerð með lögunum var 6.000 íbúa viðmiðið valið út frá því hversu mörgum málum barnaverndarþjónusta þyrfti almennt að sinna til að geta haldið úti nægilega faglegu starfi. Hægt er að fá undanþágu frá íbúalágmarkinu varðandi barnaverndarþjónustu ef næg fagþekking er til staðar innan barnaverndarþjónustu eins og nánar er lýst í lögunum. Þá er það jafnframt skilyrði að fyrir liggi samningur um samstarf um umdæmisráð barnaverndar enda ekki gert ráð fyrir að hægt sé að fá undanþágu frá íbúalágmarkinu hvað það varðar. 

Innleiðing og fjármögnun 

Í umsögn til Alþingis lýsti sambandið ákveðnum áhyggjum af því að tilkoma barnaverndarþjónustu og umdæmisráða barnaverndar kynni að hafa í för með sér aukinn kostnað fyrir sveitarfélögin. Það væri því mikilvægt að vakta þau áhrif sem nýtt fyrirkomulag muni hafa á fjárhag og stjórnsýslu sveitarfélaga. Í áliti velferðarnefndar er tekið undir þessi sjónarmið og því mikilvægt að sveitarfélög haldi slíkum upplýsingum til haga.  

Gildistaka 

Lögin öðlast gildi 1. janúar 2022 en þó koma ákvæði um barnaverndarþjónustu og umdæmisráð barnaverndar ekki til framkvæmda fyrr en 28. maí 2022 en þá taka barnaverndarþjónusta og umdæmisráð barnaverndar við verkefnum barnaverndarnefnda eins og nánar er mælt fyrir um í lögunum. Á tímabilinu 1. janúar til 28. maí 2022 fara barnaverndarnefndir áfram með verkefni barnaverndarþjónustu sveitarfélaga og umdæmisráða barnaverndar. 

Sambandið hvetur sveitarfélög til að kynna sér vel efni nýrra laga og hefja sem fyrst undirbúning að innleiðingu breyttrar stjórnsýslu í barnaverndarmálum. Sambandið væntir þess að eiga gott samstarf við félagsmálaráðuneytið um kynningu á lagabreytingum og gerð leiðbeininga til sveitarfélaga um atriði sem huga þarf að við innleiðinguna.