Fjölmenningarstarf sveitarfélaga

Þeim sveitarfélögum fer fjölgandi sem ráða fjölmenningarfulltrúa til að hafa yfirsýn yfir málefni innflytjenda í sveitarfélögum og veita fjölmenningarlegan stuðning þvert á starfsemina.

Fjölmenningarsetur stóð fyrir fundi þeirra 3. september sl. til að efla tengsl á milli þeirra og miðla þekkingu og upplýsingum á milli þeirra. Í fundinum tóku þátt fulltrúar frá níu sveitarfélögum af fjölbreyttri gerð og stærð, allt frá Reykjavíkurborgar til Vesturbyggðar.

Fjölmenningarverkefni sveitarfélaganna

  • Akureyrarbær stendur fyrir ýmsum verkefnum í málefnum innflytjenda. Samkvæmt fjölmenningarfulltrúa þeirra eru þau að meginstefnu af þrennum toga:  Verkefni sem unnin eru út frá niðurstöðum rannsókna Háskóla Akureyrar, verkefni sem unnin eru skv. tillögum innflytjendaráðs Akureyrarbæjar og að lokum verkefni á grundvelli 17 markmiða sem samþykkt hafa verið í fjölmenningarstefnu bæjarins. Sem dæmi þá er verið að vinna að því að gera heimasíðu bæjarins aðgengilegri fyrir íbúa af erlendum uppruna.
  • Hafnarfjarðarbær hefur að undanförnu lagt á áherslu á að heimasíða bæjarins sé aðgengileg fyrir íbúa af erlendum uppruna og er með virka fésbókarsíðu á ensku.
  • Kópavogsbær hefur lagt áherslu á stuðning við börn af erlendum upprauna, bæði í skólum, frístundum og gagnvart íþróttafélögum, sjá https://fjolmenning.kopavogur.is/. Meðal annars er reynt að tengja saman börn af íslenskum og erlendum uppruna, t.d. þannig að íslensk börn kynni frístundatilboð fyrir þeim erlendu.
  • Norðurþing hefur gefið út bæklinga sem sendir eru á alla íbúa sem flytja í bæjarfélagið erlendis frá. Einnig leitast bæjarfélagið við að tengjast betur íbúum af erlendum uppruna með því að fjölmenningarfulltrúi taki þátt í móttökuviðtölum grunnskóla. Unnið hefur verið að því að tengja þessa íbúa betur við þá viðburði sem haldnir eru á vegum sveitarfélagsins.
  • Reykjanesbær er að vinna að metnaðarfullu verkefni til að bæta þjónustu og upplýsingagjöf til íbúa með sérstakri áherslu á íbúa af erlendum uppruna undir heitinu: Sterk framlína í krafti fjölbreytileikans, https://www.reykjanesbaer.is/is/moya/news/stefna-reykjanesbaejar.
  • Reykjavíkurborg er með ýmis verkefni til að styðja við starfsfólk af erlendum uppruna, s.s. með því að vera með íslenskukennslu á starfsdögum og leyfa fólki að sækja íslenskunám á vinnutíma. Í undirbúningi er bæklingur um réttindi og skyldur starfsmanna á ýmsum tungumálum og jafnlaunastefna sem og að skilgreina mismunandi íslenskukröfur eftir störfum.
  • Sveitarfélagið Hornafjörður stóð fyrir túlkanámskeiði fyrir fólk í sveitarfélaginu með stuðningi stéttarfélaga og Rannís.
  • Vestmannaeyjabær gerði podcast sem heitir Af hverju Ísland?, en þar eru tekin viðtöl við íbúa af erlendum uppruna. Einnig hefur bærinn staðið fyrir rannsókn á meðal innflytjenda í Vestamannaeyjum, þar sem m.a. er könnuð upplifun þeirra af því að flytja til bæjarins og hvort upplýsingar frá sveitarfélagi séu almennt að skila sér til þeirra.

Nánar á vef sambandsins.