Í fréttabréfi Hag- og upplýsingasviðs er gerð ítarleg grein fyrir fjárhagsáætlunum A-hluta sveitarfélaga fyrir árin 2021-2024. Þar kemur fram að fjárhagsáætlanir fyrir árið 2021 litast mjög af kórónuveiru kreppunni. Kemur það annars vegar fram í lægri tekjum og verri afkomu í ár en hins vegar í auknum fjárfestingum sem ætlað er að mynda viðspyrnu gegn samdrætti í þjóðarsbúskapnum.
Þá kemur fram í fréttabréfinu að auknar fjárfestingar eru að langstærstum hluta fjármagnaðar með lántöku til lengri tíma og því hækka skuldir verulega.
Helstu niðurstöður eru þessar.
- Sveitarfélögin gera ráð fyrir að rekstrarniðurstaða A-hluta árið 2021 verði neikvæð um 21,7 ma.kr. eða 5,8% af tekjum. Til samanburðar var gert ráð fyrir jákvæðri niðurstöðu um 1,8% af tekjum í fjárhagsáætlun 2020. Enn fremur má nefna að rekstrarafgangur nam að meðaltali 3,3% af tekjum árin 2010-2019. Sjá töflu 1.
- Þriggja ára áætlanir 2022-2024 taka mið af hagspám og samkvæmt áætlunum munu tekjur hækka í takt við spár um hagvöxt. Engu að síður gera áætlanir ráð fyrir að halli verði á rekstri sveitarfélaga fram til ársins 2024 þegar gert er ráð fyrir lítilsháttar rekstrarafgangi.
- Fjárhagsáætlanir benda til að veltufé frá rekstri verði um 1,0% af tekjum árið 2021. Það er miklu minna en í fjárhagsáætlun 2020 sem gerði ráð fyrir að veltufé yrði 8,2% af tekjum. Sveitarfélög reikna með að veltufé frá rekstri muni hækka umfram tekjur næstu árin og verða 7,7% árið 2024. Að meðaltali nam veltufé 13,4% af tekjum árin 2010-2019. Sjá töflu 2.
- Áætlanir sveitarfélaga gera ráð fyrir að fjárfestingar verði um 59 ma.kr. 2021, sem er 24% hækkun frá fjárhagsáætlun 2020. Þá fela áætlanir í sér að fjárfestingar munu haldast nokkurn vegin óbreyttar árin 2021-2022 en lækka svo árin 2023 og þó einkum 2024.
- Fjárfestingar sveitarfélaga námu að meðaltali 12% af tekjum árin 2010 til 2019. Í fjárhagsáætlun 2021 er hins vegar gert ráð fyrir að fjárfestingar verði sem nemur 15,9% og 15% árið 2022.
- Í ljósi áforma um fjárfestingar munu sveitarfélögin taka ný langtímalán í ár sem nemur hærri fjárhæðum en nemur afborgunum af slíkum lánum. Skuldir og skuldbindingar A-hluta munu því hækka sem hlutfall af tekjum, verða 124% árið 2021, en stefnt var að 103% í fjárhagsáætlun 2020. Í þriggja ára áætlunum sínum reikna sveitarfélögin með að skuldahlutfall A-hluta hækki áfram til 2023 í 129% en lækki í 127% árið 2024.
- Útsvarsálagning verður 14,45% á árinu 2021, en var 14,44% árið 2020.
- Álagning fasteignaskatta í A-flokki (íbúðarhúsnæði) lækkar úr 0,232% af fasteignamati í 0,231% (lækkun um 0,47%). Meiri lækkun verður á álagningu í C-flokki (atvinnuhúsnæði), úr 1,594% í 1,562% sem er lækkun um 2%. Hér er miðað við álagningu 25 stærstu sveitarfélaganna.
- Samanburður á milli útkomuspár og fjárhagsáætlana 15 stærstu sveitarfélaganna fyrir árið 2020 sýnir viðsnúning tekna og gjalda upp á tæplega 21 ma.kr. sem má að langstærstum hluta rekja til samdráttar í þjóðarbúskapnum vegna Covid-19. Áætla má að viðsnúningurinn nemi um 25 ma.kr. fyrir sveitarfélögin í heild. Sjá töflu 3.