Samband íslenskra sveitarfélaga hefur unnið samantekt um fjárhagsáætlanir sveitarfélaga. Um er að ræða fjárhagsáætlanir 70 sveitarfélags af 72, en í þessum sveitarfélögum búa nærfellt allir íbúar landsins.
Samband íslenskra sveitarfélaga hefur unnið samantekt um fjárhagsáætlanir sveitarfélaga. Um er að ræða fjárhagsáætlanir 70 sveitarfélags af 72, en í þessum sveitarfélögum búa nærfellt allir íbúar landsins. Samantektin tekur eingöngu til A-hluta sveitarfélaga og snýr því að þeirri starfsemi sem er að hluta eða öllu leyti fjármögnuð af skatttekjum.
Helstu niðurstöður eru þær að:
- Sveitarfélögin gera ráð fyrir að rekstrarniðurstaða A-hluta verði aðeins verri á árinu 2020 en fjárhagsáætlun 2019 fól í sér, eða sem nemur 1,8% af tekjum í stað 2,5%. Þriggja ára áætlanir 2021-2023 taka mið af spám um hagvöxt og samkvæmt áætlunum munu tekjur hækka í takt við spár um hagvöxt. Gangi áætlanir eftir mun rekstrarafgangur fara vaxandi sem hlutfall af tekjum og verða tæp 4% árið 2023.
- Áætlanir benda til að veltufé frá rekstri verði um 8,2% af tekjum árið 2020. Það er dálítið minna en í fjárhagsáætlun 2019 sem gerði ráð fyrir að veltufé svaraði til 9,4% af tekjum. Veltufé frá rekstri mun hækka umfram tekjur næstu árin skv. 3ja ára áætlunum. Þannig er reiknað með að hlutfall veltufjár og tekna verði komið upp í 10,2% árið 2022.
- Áætlanir sveitarfélaga gera ráð fyrir að fjárfestingar verði tæpar 48 ma.kr. 2020, sem er 6% hækkun frá fjárhagsáætlun 2019. Þá fela áætlanir í sér að fjárfestingar muni dragast saman á árunum 2021-2023.
- Í ljósi áforma um fjárfestingar munu sveitarfélögin taka ný langtímalán í ár sem nemur hærri fjárhæðum en afborganir af slíkum lánum. Skuldir og skuldbindingar A-hluta munu þó lækka sem hlutfall af tekjum, verða 103% árið 2020, en 105% samkvæmt fjárhagsáætlun 2019. Í þriggja ára áætlunum sínum reikna sveitarfélögin með að skuldahlutfall A-hluta lækki enn og verði 94% árið 2023.
- Útsvarsálagning verður 14,44% á árinu 2020 sem er óbreytt frá fyrra ári.