Endurgreiðsla virðisaukaskatts

Sveitarfélög geta fengið endurgreiddan virðisaukaskatt vegna ákveðinnar vinnu sem innt er að hendi innan tímabilsins 1. mars 2020 og til og með 31. desember 2020.

Alþingi samþykkti fyrr í vetur, í aðgerðarpakka 1, tímabundna endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna vinnu sem innt er af hendi á tímabilinu frá 1. mars 2020 til og með 31. desember 2020 á byggingastað við byggingu, viðhald eða endurbætur á íbúðarhúsnæði og frístundahúsnæði í eigu sveitarfélaga. Í aðgerðarpakka 2 var þessi endurgreiðsla útvíkkuð til að ná til annars húsnæðis í eigu sveitarfélaga. Það þýðir að heimildin nær nú yfir allt húsnæði sveitarfélaga svo lengi sem það er skráð í fasteignaskrá Þjóðskrár. Markmið ríkisins með þessum aðgerðum er að skapa störf og hefur sambandið hvatt til þess að gildistíminn verði framlengdur þar sem mikilvægi þess að skapa störf ná fram yfir áramót.

Sveitarfélög geta fengið endurgreiddan virðisaukaskatt vegna ákveðinnar vinnu sem innt er að hendi innan tímabilsins 1. mars 2020 og til og með 31. desember 2020. Endurgreiðsla virðisaukaskatts nær til eftirfarandi vinnu sem:

  1. Byggjendur íbúðar- og frístundahúsnæðis hafa greitt af vinnu manna á byggingarstað.
  2. Eigendur íbúðar- og frístundahúsnæðis hafa greitt af vinnu manna á byggingarstað við endurbætur eða viðhald þess.
  3. Byggjendur íbúðar- og frístundahúsnæðis hafa greitt af þjónustu vegna hönnunar eða eftirlits með byggingu þess.
  4. Eigendur íbúðar- og frístundahúsnæðis hafa greitt af þjónustu vegna hönnunar eða eftirlits við endurbætur eða viðhald þess.
  5. Eigendur eða leigjendur, þar á meðal húsfélög, hafa greitt af vinnu manna vegna heimilisaðstoðar eða reglulegrar umhirðu íbúðarhúsnæðis.
  6. Sveitarfélög eða stofnanir og félög sem alfarið eru í eigu sveitarfélaga hafa greitt af vinnu manna á byggingarstað við byggingu, endurbætur eða viðhald á öðru húsnæði sem alfarið er í eigu þeirra, enda sé húsnæðið skráð í fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands.

Sambandið hefur tekið saman minnisblað um endurgreiðslu virðisaukaskatts þar sem nánar er fjallað um efnið. Vakin er athygli á því að reglugerð um efnið er nú til umsagnar og því getur útfærslan tekið minniháttar breytingum.

Vakin er athygli á því að hægt er að nálgast allar nánari upplýsingar um aðgerðir stjórnvalda vegna COVID-19  er nýtast sveitarfélögum í sérstakri samantekt er sambandið hefur tekið saman.