„Mér eru nýir starfshættir hugleiknir. Ekki bara vegna Covid-19 heldur líka í ljósi þess að sveitarfélögin eiga engra annarra kosta völ en að endurskoða hlutverk sitt í breyttum veruleika á 21. öldinni,“ sagði Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri Akureyrarbæjar á fjármálaráðstefnunni í morgun.
Hún sagði að að heimsfaraldurinn hafi vakið sveitarstjórnarfólk upp af vondum draumi. Því nú blastir það við sem menn vissu auðvitað innst inni en hætti til að gleyma - að fólkið er ekki til fyrir kerfið, heldur kerfið fyrir fólkið.
Hún minnti á að í dag hvíli miklu ríkari skyldur á herðum sveitarfélaga en í gamla daga. Verkefnin sé miklu stærri, fleiri og flóknari og fólk geri kröfu um hraða afgreiðslu og faglega nálgun.
Stöndum á tímamótum
Hún rifjaði upp hvernig tæknin hefði hafið innreið sína á síðustu áratugum hjá sveitarfélögum allt í kringum landið. Í dag stæðu þau á tímamótum.
„Nú er komin tækni sem leysir fjölmörg flókin afgreiðslu mál á augabragði og klárar bókhaldið hratt og örugglega. Gagnastýring og gagnaflutningur eru hröð og örugg - og við höldum stutta og snarpa fundi með fólki í öðrum lands- eða heimshlutum, þar sem lesa má úr málrómi og svipbrigðum fólks, án þess að yfirgefa skrifstofuna. Slíka fundi forðuðumst við flest eins og heitan eldinn í byrjun þessa árs,“ sagði Ásthildur.
Hún sagði lærdóminn af Covid-19 meðal annars þann að hægt væri að innleiða mjög margt á stuttum tíma ef viljinn væri fyrir hendi. Það sem ekki var hægt í byrjun árs sé hægt í dag og í raun hafi orðið tæknibylting hjá öllum fyrirtækjum og stofnunum í vor.
Hún sagði ekkert sveitarfélag hafa farið varhluta af þeirri kreppu sem skollið hefur á heimsbyggðina. Varla standi steinn yfir steini og forsvarsmenn flestra sveitarfélaga séu í öngum sínum yfir fjárhagsstöðunni. Öllum sé ljóst að fram undan séu erfiðir tímar, harður vetur og atvinnuþref.
„Við slíkar aðstæður þarf að taka til í búskapnum, endurskipuleggja og herða ólina að sársaukamörkum en þó án þess að það skemmi út frá sér. Við þurfum að verja viðkvæmustu hópana en það má víða halda að sér höndum í verkefnum sem sveitarfélögunum ber ekki lögboðin skylda til að sinna,“ sagði Ásthildur.
Líta til þeirra sem rutt hafa brautina
Hún sagði að einfalda þurfi alla ferla, gera afgreiðslu mála skilvirkari og síðast en ekki síst eigi ekki að sólunda tíma og orku í að finna upp hjólið. Það eigi að líta til þeirra sem rutt hafa brautina og tileinkað sér nýjar lausnir með góðum árangri.
Hún benti á stefnu sem Eistar hafa tileinkað sér á liðnum árum þar sem markmiðið sé að stjórnsýslan sé eins umfangslítil og hugsast getur en um leið eins umfangsmikil og þörf krefur. Þannig megi nýta til nýsköpunar það fjármagn sem annars færi í óþarflega útbelgt opinbert kerfi. „Við eigum að nýta það fjármagn sem sparast gæti með hátæknilausnum til að styðja við atvinnulífið, setja meira fjármagn í rannsóknir og þróun, frekar en að láta kerfið snúast um sjálft sig og graðka í sig það takmarkaða fjármagn sem við þó höfum úr að spila,“ sagði Ásthildur.
Látum ekki tækifærin úr greipum okkar ganga
Hún sagði að í nýjum veruleika blasi við ný tækifæri sem ekki megi láta úr greipum ganga. Hún sagði að nú hefðu sveitarfélögin tækifæri til að breyta vinnulagi og starfsháttum til framtíðar en í því sem öðru geti kostað peninga að búa til peninga. Hún hvatti sveitarfélögin til að sameinast um þessa vegferð og bjóða sameiginlega út stór hugbúnaðarverkefni og samræma sig í innkaupum. „Nýtum okkur tæknina, lærum af þeim sem fremstir standa, söfnum gögnum og notum þau til að ná árangri“.
Sjórnsýsla ríkisins flækir málin
Ásthildur sagði að sveitarfélögin ættu að vera öryggisnet í velferðarsamfélagi. Hún gerði að umtalsefni nýlegar fréttir um að innan við 1.200 börn bíði greiningar eða meðferðar við geðrænum og sálrænum vanda og að helmingur þeirra bíði eftir meðferð. Hún sagði að til væru veflausnir á þessu sviði sem fjölmörg sveitarfélög séu nú þegar að nýta sér sem spari bæði tíma og kostnað. Hins vegar virtist stjórnsýsla ríkisins ætla að flækja þetta í rot þannig að færri hljóti meðferð en þurfa. Hún spurði meðal annars hversu mörg börn fái ekki fullnægjandi kennslu vegna þess að réttindakennarar eru ekki starfandi í sveitarfélögunum og þá kannski sérstaklega í smærri samfélögum? „Mætti ekki nýta fjarkennslu meir og betur í stað þess að biðja strákinn í sjoppunni að kenna af því að hann er með stúdentspróf“, sagði Ásthildur. Hún sagðist frekar vilja fá besta stærðfræðikennarann á Íslandi til að kenna á fjarfundi þó svo að viðkomandi greiði ekki útsvar í mínu sveitarfélagi.
„Næstu ár verða erfið. Nú þurfum við að sýna þrautseigju, hugrekki, útsjónarsemi, skynsemi og standa fast í fæturna og gera breytingar. En það er klárt að við erum komin á fulla ferð með starfsháttabreytingu sem ekki sér fyrir endann á. Hinn stafræni veruleiki segir já“, sagði Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri á Akureyri.