Á síðasta löggjafarþingi voru gerðar breytingar á barnaverndarlögum sem lúta fyrst og fremst að breyttu skipulagi barnaverndar. Breytingarnar taka gildi að loknum næstu sveitarstjórnarkosningum, þ.e. þann 28. maí 2022.
Samkvæmt lögunum verða barnaverndarnefndir lagðar niður og í stað þeirra verða starfræktar tvær aðskildar einingar á vettvangi sveitarfélaga, annars vegar barnaverndarþjónusta og hins vegar umdæmisráð barnaverndar.
Að baki hverrar barnaverndarþjónustu verða umdæmi með í það minnsta 6.000 íbúum nema veitt verði undanþága að uppfylltum sérstökum skilyrðum.
Umdæmisráð barnaverndar verða sérstakar stjórnsýslunefndir á vettvangi sveitarfélaga. Umdæmisráðin fara með afmörkuð verkefni í tengslum við meðferð barnaverndarmála þar sem talin er mest þörf á sérhæfðri fagþekkingu í barnavernd. Að öðru leyti fer barnaverndarþjónusta með barnaverndarmál.
Þessar breytingar hafa í för með sér að mörg sveitarfélög þurfa að huga að samvinnu sín á milli bæði við rekstur barnaverndarþjónustu og umdæmisráða, ásamt því að taka ákvörðun um hvort óskað verði eftir undanþágu frá 6.000 íbúa lágmarksfjölda að baki barnaverndarþjónustu.
Samband íslenskra sveitarfélaga, í samvinnu við Félagsmálaráðuneytið, mun halda kynningu á breyttri skipan barnaverndar mánudaginn 13. desember kl. 14.00 og vonast eftir góðri þátttöku sveitarfélaga. Sambandið óskar jafnframt eftir því að allar sveitarstjórnir og stjórnir landshlutasamtaka sveitarfélaga fjalli á sínum vettvangi um stöðu undirbúnings fyrir þær breytingar sem nú eru framundan.
Nánari upplýsingar um nýja skipan barnaverndarmála hjá sveitarfélögum.