Brennur þú fyrir forvörnum?

Samband íslenskra sveitarfélaga auglýsir stöðu forvarnafulltrúa sem mun vinna að því að styðja við framkvæmd aðgerðaáætlunar 2021-2025 um skipulagðar forvarnir meðal barna og ungmenna gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni.

BÚIÐ ER AÐ RÁÐA Í STARFIÐ!

Leitað er að drífandi leiðtoga sem brennur fyrir málefninu og hefur til að bera frumkvæði, sjálfstæði í vinnubrögðum, framúrskarandi hæfni í samskiptum, getu til að miðla efni í ræðu og riti, nákvæmni í vinnubrögðum og skipulagshæfileika. Þá krefst starfið þverfaglegs samstarfs og teymisvinnu.

Um er að ræða tímabundið starf til tveggja ára með möguleika á framlengingu.

Sérstaklega er vakin athygli á því að þeir sem ráðnir verða geta haft starfsstöð utan höfuðborgarsvæðisins á einhverjum af þeim starfstöðvum sem Byggðastofnun hefur kynnt fyrir störf án staðsetningar, og má finna á vefsíðu stofnunarinnar eða sambærilegri aðstöðu.

Helstu verkefni og ábyrgð

  • Fylgja því eftir að forvarnir verði markviss þáttur í skólastefnu sveitarfélaga og forvarnastefnu hvers skóla og samþættar inn kennslu og skólastarf.
  • Veita skólaskrifstofum, skólum, frístundaheimilum og félagsmiðstöðvum stuðning og fræðslu og styðja við að til verði virk forvarnateymi í hverjum grunnskóla.
  • Styðja við forvarnastarf í framhaldsskólum og í félögum og stofnunum, sem starfa með fötluðum börnum og ungmennum.
  • Taka saman upplýsingar um framgang aðgerðaráætlunarinnar og framhald hennar í samstarfi við skrifstofu jafnréttismála í forsætisráðuneytinu og önnur verkefni í tengslum við framgang áætlunarinnar eftir því sem við á.

Starfslýsing forvarnarfulltrúa.

Hæfniskröfur

  • Háskólamenntun og starfsreynsla sem nýtist í starfi. Meistarapróf er kostur.
  • Geta til að stýra verkefnum, setja upp skipulag og áætlanir og fylgja þeim eftir.
  • Framúrskarandi samstarfs- og samskiptahæfileikar, frumkvæði og metnaður til að ná árangri.
  • Gott vald á íslensku máli í ræðu og riti og hæfni í framsetningu upplýsinga er skilyrði.
  • Mjög góð færni í ensku og  kunnátta í einu Norðurlandamáli er kostur.

Nánari upplýsingar veitir Anna Guðrún Björnsdóttir, sviðsstjóri þróunar- og alþjóðasviðs anna.g.bjornsdottir@samband.is eða í síma 515-4900.

Samband íslenskra sveitarfélaga er framsækinn vinnustaður sem býður upp á opið vinnuumhverfi og samheldinn starfsmannahóp. Umsækjendum er bent á að frekari upplýsingar um Samband íslenskra sveitarfélaga eru á vefsíðunni, www.samband.is. Þar er einnig að finna nánari starfslýsingu sem og mannauðsstefnu sambandsins. 

Mannauðsstefna sambandsins.

Húsnæði fyrir störf án staðsetningar - kort á vef Byggðastofnunar.

Umsóknir merktar Umsókn um starf forvarnarfulltrúa skulu berast eigi síðar en mánudaginn 15. mars nk. til Sambands íslenskra sveitarfélaga, Borgartúni 30, pósthólf 8100, 128 Reykjavík eða með tölvupósti á samband@samband.is Umsókn skal fylgja ítarleg starfsferilsskrá og kynningarbréf þar sem gerð er grein fyrir ástæðu umsóknar og rökstuðningur fyrir hæfni viðkomandi í starfið.