Skipulagsdagur sveitarfélaga fór fram við góðar undirtektir í dag, en þátttakendur voru hátt á þriðja hundrað manns. Tæpt var á helstu áskorunum og tækifærum sveitarfélaga í skipulagsmálum og óhætt er að segja að víða hafi verið komið við í fjölbreyttri dagskrá dagsins.
Skipulagsdagur sveitarfélaga fór fram við góðar undirtektir í dag, en þátttakendur voru hátt á þriðja hundrað manns. Tæpt var á helstu áskorunum og tækifærum sveitarfélaga í skipulagsmálum og óhætt er að segja að víða hafi verið komið við í fjölbreyttri dagskrá dagsins.
Nálgast má upptökur af frummælendum og umræðum dagsins hér á vef sambandsins.
Á meðal frummælenda var Guðjón Bragason, sviðsstjóri hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Erindi sitt nefndi hann Helstu áskoranir og fjallaði það um þau mörgu og viðamiklu skipulagsverkefni sem bíða úrlausnar í loftslagsmálum, umhverfismálum og öðrum brýnum viðfangsefnum samtímans.
Óhætt er að segja, að fyrirlestur Guðjóns spanni breitt svið og gefi þannig góða yfirsýn yfir stöðu mála. Á meðal skipulagsverkefna sem hann víkur að eru endurheimt votlendis vegna kolefnisbindingar, úrvinnsla lífræns úrgangs, borgarlína, almenningssamgöngur utan höfuðborgarsvæðisins, miðhálendisþjóðgarður, friðlýsingar og orkuskipti í samgöngum.
Af öðrum frummælendum má nefna Einar Jónsson og Hafdísi Hafliðadóttur hjá Skipulagsstofnun, en þau fjölluðu um forsendur og stefnumörkun í skipulagsgerð og endurskoðun aðalskipulags. Þá fjallaði Steinunn Fjóla Sigurðardóttir, umhverfis- og auðlindaráðuneyti, um nýja löggjöf um haf- og strandsvæðisskipulag og Ester Anna Ármannsdóttir, hjá Skipulagsstofnun, kynnti gerð strandsvæðisskipulags.
Erlendi fyrirlesari dagsins var Charles Campion, starfandi arkitekt og borgarhönnuður í Lundúnaborg og framámaður um samráðsnálgun í skipulagsgerð. Þau tækifæri sem slík nálgun getur falið í sér fyrir sveitarfélög eru mörg, s.s. í íbúahverfum þar sem endurreisnar er þörf eða á svæðum þar sem snúa þarf vörn í sókn.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, hóf skipulagsdaginn með ávarpi.
Aðrir frummælendur voru Ásdís Hlökk Theódórsdóttir, forstjóri Skipulagsstofnunar, Stefán Gíslason, umhverfisstjórnunarfræðingur, Þráinn Hauksson, landslagsarkitekt og Anna María Bogadóttir, arkitekt.
Þá tók fjöldi sveitarstjórnarfólks þátt í panel-umræðum, þar á meðal Björg Ágústsdóttir, bæjarstjóri Grundarfjarðarbæjar, Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri Hafnarfjarðarkaupstaðar, Friðbjörg Matthíasdóttir, bæjarfulltrúi Vesturbyggð og Gauti Jóhannesson, sveitarstjóri í Djúpavogshreppi.
Fylgjast mátti með skipulagsdeginum hér á vef sambandsins í beinu streymi. Nálgast má svo upptökur af erindum dagsins og umræðum á hlekk hér að neðan.
Skipulagsdagurinn er samstarfsverkefni Skipulagsstofnunar og Sambands íslenskra sveitarfélaga.