Viðburðir
20.09.2018

Skipulagsdagurinn

Að venju verður sjónum beint að því sem efst er á baugi í skipulagsmálum.

Aðalræðumaður dagsins er Charles Campion arkitekt og borgarhönnuður og forvígismaður í samráðsskipulagsteymi hjá ráðgjafarstofunni JTP í Lundúnaborg. Í erindi sínu fjallar Charles um samráðsnálgun við skipulagsgerð þar sem jafnframt er lögð áhersla á staðarmótun og gæði byggðar, en hann hefur langa reynslu af slíku starfi eins og lesa má nánar um í nýútkominni bók eftir hann, 2020 Vision Collaborative Planning and Placemaking. 

Á Skipulagsdeginum verður enn fremur rætt um viðfangsefni sveitarstjórna á sviði skipulagsmála, nú í upphafi kjörtímabils, ekki síst tengt endurskoðun aðalskipulags. Einnig verða kynnt ný lög um skipulag haf- og strandsvæða og fyrirhuguð verkefni við gerð strandsvæðisskipulags á Austfjörðum og Vestfjörðum.

Þá verður nýju landsskipulagsferli fylgt úr hlaði með erindum um þau þemu sem áformað er að marka stefnu um á þeim vettvangi, þ.e. um það hvernig flétta má loftslagsmál, landslag og lýðheilsu sem best inn í skipulagsgerð.

Framsögumenn á skipulagsdeginum koma víða að og verður dagskráin samsett af erindum og panelumræðum með þátttöku gesta úr sal. Þátttökugjald er kr. 6.000, innifalið er hádegisverður og veitingar í kaffihléum.


Allir sem starfa að skipulagsmálum eru hvattir til að mæta. Að skipulagsdeginum standa Skipulagsstofnun og Samband íslenskra sveitarfélaga.

Skráning á skipulagsdaginn